Kanadískir ferðamenn eyddu mest, ef horft er til erlendrar kortaveltu hér á landi í janúar, þvínæst Svisslendingar og svo Bandaríkjamenn, en í þrem neðstu sætunum eru Kínverjar, Japanir og Pólverjar.

Nam erlenda kortaveltan 17 milljörðum króna í janúar hér á landi, en á sama tíma fyrir ári nam hún 12 milljörðum króna, að því er kemur fram í nýjum tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Aukningin minni en fjölgun ferðamanna

En á sama tíma og aukningin nemur tæpum helming, þá voru ferðamenn til landsins 136 þúsund í janúar síðastliðnum, sem er 75% aukning frá sama mánuði fyrir ári síðan.

Því hefur kortaveltan dregist saman um 15% á milli áranna, á hvern ferðamann, í krónum talið. En ef kortaveltan er mæld í Bandaríkjadölum hefur hún reyndar einungis dregist saman um 2%, vegna styrkingar krónunnar.

Á sama tíma hefur verðlag ferðaþjónustuaðila einnig hækkað, má þar nefna 11% hækkun milli ára í gistiþjónustu, 5% hækkun veitingastaða og 13% hækkun pakkaferða innanlands, í íslenskum krónum.

Dagvöruverslun jókst umfram fjölda ferðamanna

Þegar litið er til kortaveltunnar eftir flokkum, þá jókst hún um 44% í flokki ýmissar ferðaþjónustu , en hún inniheldur ýmsar skipulagðar ferðir og starfsemi ferðaskrifstofa.

Hins vegar var 57,9% aukning í veltu erlendra kreditkorta í flokki gistiþjónust u, og jókst hún um ríflega milljarð milli ára en hún var rúmlega 2,9 milljarðar í janúar á þessu ári.

Greiðslukortaveltan til bílaleiga jókst jafnframt um 52,7% frá janúar í fyrra, og nam hún 1,1 milljarði og svo jókst greiðslukortavelta veitingaþjónustu 56,4% en hún nam 1,5 milljarði króna í janúar.

Aukningin í flugsamgöngum nam 43,6% milli ára, og fór hún úr 3,2 milljörðum í 4,5 milljarða króna. Aukningin í sama flokki milli áranna 2015 og 2016 var þó 136%.

Erlend greiðslukortavelta í verslunum almennt jókst um 45% í janúar miðað við janúar í fyrra, en í dag- og tollfrjálsri verslun jókst um 80%, meðan hún jókst einungis um 27,1% í fataverslun og um 12,9% í annarri verslun.

Mikill munur eftir þjóðernum

Kanadamenn greiddu hæstu fjárhæðirnar eða um 227 þúsund krónum á hvern ferðamann, næst koma Svisslendingar með 212 þúsund krónur á hvern ferðamenn og loks Bandaríkjamenn með 187 þúsund krónur.

Minnst eyddu ferðamenn frá Póllandi, eða 22 þúsund krónur á hvern ferðamann, næst koma Japanir með um 33 þúsund króna veltu og loks Kínverjar með um 88 þúsund króna veltu.