*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 14. maí 2021 14:01

Kortavelta lækkaði í apríl

Heildarvelta með greiðslukort lækkaði um 7,1% í apríl, vísbendingar um að ferðamannaiðnaðurinn sé að byrja að rétta úr kútnum.

Ritstjórn
Kortavelta lækkaði í mánuðinum

Heildarvelta innlendra greiðslukorta lækkaði um 7,1% í apríl og nam 78,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Velta með kreditkort nam 41,7 milljörðum króna og velta með debetkort var 36,7 milljarðar. Þá var velta með greiðslukort í innlendum verslunum 68 milljarðar króna sem að nemur 87% af allri veltunni. Veltan í erlendum verslunum var 8,7 milljarðar sem að nemur hækkun um 3 milljarða frá apríl 2020.

Í gögnum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar kemur fram að greiðslukortavelta hækki um 26% á milli ára, eða sem nemur 14,1 milljarð króna. Vert er þó að taka fram að Seðlabankinn og rannsóknarsetrið nota mismunandi mælikvarða við útreikninga á kortaveltu og samkvæmt mælikvarða rannsóknarseturins var greiðslukortavelta 70,2 milljarðar króna.

Vöxtur í hefðbundinni verslun óx um 5,4 milljarða á milli ára samkvæmt gögnum Rannsóknarsetursins. Þar af jókst fataverslun um 131% og verslun með heimilisbúnað  um 123%. Á móti kemur að samdráttur mældist í áfengisverslun, gjafa- og minjagripaverslun auk bóka-, blaða-, og hljómplötuverslunar. Þá mældist í fyrsta sinn samdráttur í vefverslun samanborið við fyrra ár.

Velta með innlenda þjónustu vex um 50% á milli ára og nam hún 27,6 milljörðum í apríl. Þá var heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í aprílmánuði 2,9 milljarðar samanborið við 0,95 milljarða 2020. Þar af óx kortavelta í gistiþjónustu úr 0,5 milljörðum í 1 milljarð og bílaleigur úr 0,1 milljarð í 2,3 milljarða. Gefur þetta ágætis vísbendingu um að ferðamannaiðnaðurinn sé að taka við sér. 

Stikkorð: Seðlabankinn Kortavelta