Kosningarúta Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, er nú til sölu fyrir 25.000 pund eða fyrir rúmar fimm milljónir íslenskra króna. Rútan er 18 tonn með 12 lítra Rolls Royce dísilvél og fer mest upp í tæpa 130 km/klst. Óhætt er að segja að þessi forláta bifreið hefur verið spar á vinnu sína miðað við forsætisráðherrann en rútan er eingöngu keyrð 22.500 kílómetra. Þetta kemur fram á vef The Guardian.

Rútan var smíðuð árið 1983 og komast 36 manns í hana. Eigandinn, Nick Mead, segir rútuna virka sem skyldi þó útlitið beri það ekki með sér.

Margaret Thatcher var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979 til 1990 en hún lést 8. apríl árið 2013.