Elskhugi, njósnari, áhugamaður um hanastél, atvinnumorðingi. James Bond er margslungin persóna, og hann hefur verið margt gegnum tíðina. Eitt hefur þó verið öruggt, hvort sem hann er svífandi í geimnum eða á botni hafsins í rússneskum kjarnorkukafbáti - hann er aldrei ódýr í rekstri. Bloomberg tók saman örfáar tölur um James Bond.

Framleiðslukostnaður nýju myndarinnar, Spectre, er metinn til að vera í kringum 300 milljónir dala eða 38,4 milljarða króna. Það er rétt rúmlega tvöfalt meira en síðasta mynd, Skyfall, kostaði - en hún kostaði á bilinu 150-200 milljónir dala eða 19,2 milljarða króna í minnsta lagi. Framleiðendurnir þurfa þó engar áhyggjur af Spectre að hafa ef hún halar inn jafn miklum tekjum og sú síðasta, sem seldi bíómiða fyrir 1,1 milljarð bandaríkjadala eða 140 milljarða íslenskra króna.

Bifreiðarnar sem Bond hefur ekið gegnum tíðina eru heldur ekki af verri endanum. Hann er þekktur fyrir sérstakt dálæti sitt á Aston Martin lúxusrennireiðum og það er engin undantekning á þessari ástríðu hans þetta árið. Bond ekur Aston Martin DB10 og Jaguar C-X75 í Spectre. Aðeins örfá eintök af DB10 bílnum voru framleidd og kostar einn slíkur vagn í kringum hálfa milljón dala eða 64 milljónir króna. Jagúarinn myndi svo setja strik í reikninginn þinn upp á 1,2 milljón dali enn, eða 153,6 milljónir íslenskra króna. Þessar glæsikerrur borga breskir skattgreiðendur svo undir Bond.

Spectre er 148 mínútna löng, eða tveimur mínútum undir tveimur og hálfri klukkustund. Sem slík er hún lengsta Bond-mynd frá upphafi. Næstlengst var Casino Royale, en hún var 144 mínútur. Þar á eftir kemur svo Skyfall, sem var 143 mínútur.

Nýjasta byssa spæjarans kostar svo litla 719 bandaríkjadali eða 92 þúsund krónur. Í gegnum tíðina hefur Bond verið þekktur fyrir að styðjast við hina gömlu góðu Walther PPK, sem er nánast helmingi ódýrari. Það er þó ekki enn staðfest að Bond sé búinn að skipta um skotvopn.

James Bond hefur notað samskonar úr í meira en tvo áratugi og það breytist ekki í ár. Hann er þekktur fyrir úr af gerðinni Omega Seamaster, sem kostar einhverja sex þúsund dali í minnsta lagi eða 770 þúsund íslenskar krónur. Í fyrsta sinn er úrið úr myndinni þó framleitt til sölu fyrir almenning, og geta aðdáendur njósnarans þá keypt sér sérstaka NATO-ól sem '007' hefur verið grafið í. Óvíst er hvort James sjálfur myndi notast við slíka ól, en dæmi hver fyrir sig.