Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur höfðað mál gegn Tomas Virsilas fyrir margítrekuð brot, m.a. bensínþjófnaði, þjófnaði úr verslunum og umferðalagabrot.

Það sem vekur athygli við lesningu kærunnar, sem birt er í Lögbirtingablaðinu, er að svo virðist sem Tomas hafi, á innan við tveggja mánaða tímabili, sex sinnum dælt eldsneyti á bifreið sína og ekið á brott án þess að greiða fyrir.

Í öll skipti nema eitt verður N1 fyrir barðinu, þar af bensínstöðin á Ártúnshöfða þrisvar, en í eitt skipti er Tomas sakaður um að hafa dælt eldsneyti frá Olís og ekið á brott án þess að greiða.

Heildarverðmæti þess eldsneytis sem Tomas er sakaður um að hafa dælt á bifreið sína án þess að greiða er 29.679 krónur. Í eitt skiptið er Tomas sakaður um að hafa dælt eldsneyti fyrir 7.001 krónu og er það jafnframt hæsta einstaka upphæðin en lægsta upphæðin er 2.001 króna.

Þá er Tomas jafnframt sakaður um þjófnað úr verslunum Útilífs. Annars vegar er  um að ræða Nike dúnvesti fyrir tæplega 16 þúsund krónur úr verslun Útilífs í Holtagörðum og annars vegar fatnaði fyrir tæpar 25 þúsund krónur úr verslun Útilífs í Smáralind. Fyrra brotið átti sér stað í október 2008 en það seinna í mars 2009, á sama tíma og eldsneytisþjófnaðurinn sem áður var greint frá.

Í lokin fylgja síðan ákærur fyrir fimm umferðalagabrot, þar af þrisvar þar sem ekið var undir áhrifum áfengis.