Skjár Einn efnir til söfnunarátaks og sendir út skemmtiþátt í beinni útsendingu föstudaginn 20. júní kl. 21:00-23:30. Þættinum verður einnig útvarpað á Rás 2.

Í fréttatilkynningu frá Skjá Einum segir að ágóði söfnunarinnar renni óskertur til átaksins „Á allra vörum,“ sem hefur það að markmiði að aðstoða Krabbameinsfélag Íslands við að kaupa stafrænan röntgenbúnað sem getur betur greint krabbamein í brjóstum á frumstigi en núverandi búnaður.

„Þátturinn verður um margt sögulegur. Skipuleggjendur, þátttakendur og starfsmenn þáttarins verða svo til eingöngu konur og munu því vel yfir 200 konur starfa við útsendinguna og söfnunina á einn eða annan hátt. Ekki er vitað til þess að svo margar konur hafi áður tekið þátt í útsendingu skemmtiþáttar á borð við þennan á Íslandi. Allir sem koma að útsendingunni gefa vinnu sína.”

Jóhanna Vilhjálmsdóttir frá RÚV, Kolfinna Baldvinsdóttir frá ÍNN, Nadía Banine frá Skjá Einum og Svanhildur Hólm frá Stöð 2, munu taka höndum saman í söfnuninni. En jafnan eru þær í harðri samkeppni á öldum ljósvakans.

Í söfnunarþættinum munu landsþekktar konur standa fyrir umræðum og skemmtiatriðum í beinni útsendingu. Auk þess að fræða og skemmta áhorfendum munu þær kynna mikilvægi nýju tækjanna og upplýsa um gang söfnunarinnar. Einnig munu konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein segja sínar sögur og miðla af reynslu sinni.

Sýnt verður beint frá sjónvarpssal Skjás Eins og þjónustuveri Já 118 þar sem svarað verður í sérstakt áheitanúmer.

Söfnunarnúmer átaksins hafa verið opnuð og eru: 903 1000 fyrir þá sem vilja gefa 1.000 kr., 903 3000 fyrir þá sem vilja gefa 3.000 kr. og 903 5000 fyrir þá sem vilja gefa 5.000 kr. Söfnunarnúmerin verða opin allt þar til útsendingu lýkur. Á meðan á beinni útsendingu stendur verður einnig hægt að hringja í síma 595 6000 þar sem þjóðþekktar konur sitja í þjónustuveri Já og taka við framlögum.