Fjármála- og efnahagsráðuneytið neitar að veita upplýsingar um það hvernig útidyrahurðir Seðlabankans og í Fossvogskirkju voru flokkaðar og hvaða tollur var lagður á þær. Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag vill listamaðurinn Leifur Breiðfjörð fá úr því skorið hvort bronshurðir sem hann gerði og voru settar upp í Hallgrímskirkju í byrjun árs 2010 séu listaverk eða smíðavörur í skilningi tollalaga. Hann hefur farið í mál við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem telur hurðirnar vera smíðavörur.

Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Lögmaður Leifs telur niðurstöðu málsins geta haft áhrif á túlkun tollalaga og hvar vörur eru flokkaðar samkvæmt þeim. Smíðavörur bera samkvæmt skilgreiningu tollalaga 25,5% virðisaukaskatt. Enginn skattur er hins vegar lagður á listaverk. Ekki er um háar fjárhæðir að ræða sem eru undir í málinu eða á minna en tíu milljónir króna.

Beðið hafði verið eftir því í 25 ár að listasmíðin skilaði sér í Hallgrímskirkju og tók það söfnuð kirkjunnar 14 ár að safna fyrir þeim. Hurðirnar voru smíðaðar í Þýskalandi og eru þær engin smásmíði; hvor þeirra vó um átta hundruð kíló og þurfti krana til að koma þeim á sinn stað.

Hurðirnar í Seðlabankanum og Fossvogskirkju eru mikil listasmíði eins og hurðirnar í Hallgrímskirkju. Lögmaður Leifs telur að hurðirnar hafi verið tollafgreiddar sem listaverk og því án virðisaukaskatts. Hann krafðist því þess að ríkið upplýsti um tollafgreiðslu þeirra. Því var neitað við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.