Aðstoðarmenn ráðherranna níu eru átta talsins en Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra er sá eini sem ekki hefur ráðið sér aðstoðarmann. Hann sagði í samtali við vb.is í síðustu viku ekki þurfa þess enn sem komið er.

Eins og staðan er núna eru aðstoðarmennirnir tveimur færri en í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þeir aðstoðarmenn sem ráðherrarnir hafa ráðið frá stjórnarskiptum eru allir blautir á bak við eyrun ef svo má segja. Þeir voru ekki aðstoðarmenn núverandi ráðherra áður en þeir tóku sæti í ríkisstjórn. Svanhildur Hólm var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins áður en hún gerðist aðstoðarkona Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og Jóhannes Þór Skúlason hafði verið aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í tvö ár áður en hann varð forsætisráðherra í síðasta mánuði.

Fjallað er ítarlega um launakjör aðstoðarmanna ráðherra í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .