*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 18. apríl 2020 14:02

Kröfu Sveins Andra hafnað

Héraðsdómarinn Helgi Sigurðsson þarf ekki að víkja sæti í ágreiningsmáli þrotabús EK1923 og kröfuhafa þess.

Jóhann Óli Eiðsson
Sveinn Andri Sveinsson er skiptastjóri þrotabús EK1923.
Haraldur Guðjónsson

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem því var hafnað að héraðsdómarinn Helgi Sigurðsson viki sæti í máli kröfuhafa þrotabús EK1923 gegn Sveini Andra Sveinssyni, skiptastjóra þrotabúsins. 

Þræta aðila málsins ætti að vera flestum að góðu kunn. Kröfuhafar búsins hafa að undanförnu gert athugasemdir við háa þóknun sem skiptastjórinn hefur tekið sér fyrir störf sín og að upplýsingagjöf frá honum hafi verið ábótavant. 

Fóru kröfuhafar meðal annars fram á það að Sveinn Andri endurgreiddi þrotabúinu þá þóknum sem hann hafði tekið sér og að skiptaþókknun hans yrði lækkuð verulega. Þá var farið fram á það að skiptastjóra yrði vikið úr starfi sínu með dómsúrskurði ef í ljós kæmi að hann hefði greitt sjálfum sér þóknun án heimildar kröfuhafa. 

Í október á síðasta ári tók héraðsdómari, umræddur Helgi Sigurðsson, ákvörðun um að finna að þeirri háttsemi Sveins að taka sér greiðslu af fjármunum búsins án þess að bóka um það í fundargerð. Þá var Sveini gert að endurgreiða þrotabúinu þóknunina en til þess var gefinn ríflega mánaðar frestur. Ekki þóttu efni til að víkja Sveini úr starfi í ljósi þess að stutt var í skiptalok. Síðan þá hafa verið haldnir þrír fundir með aðilum til að fjalla um ágreining um það hvort aðgerðir Sveins hefðu verið fullnægjandi. 

Eftir þetta kvartaði Sveinn undan Helga til nefndar um dómarastörf en í síðasta mánuði vísaði nefndin erindinu frá sér þar sem kvörtunin lyti að endurskoðun á ákvörðun dómarans. Samkvæmt lögum um dómstóla er ekki unnt að bera slík efni undir nefnd um dómarastörf.

Engar ástæður til að draga hæfi dómarans í efa

Í úrskurði Landsréttar segir að ákvarðanir þær sem héraðsdómur hafði tekið sættu ekki endurskoðun réttarins. Hins vegar var tekin afstaða til þess hvort dómaranum bæri að víkja sæti í ágreiningi aðila. 

Sveinn Andri byggði kröfu sína á þremur meginröksemdum. Í fyrsta lagi taldi hann að afstaða dómarans litaðist af persónulegri andúð í sinn garð. Í annan stað taldi hann kvörtunina til nefndar um dómarastörf valda vanhæfi í málinu. Í þriðja og síðasta lagi benti Sveinn á að lögmannsstofan BBA Legal væri einn kröfuhafa búsins og að einn eigenda hennar væri Bjarki Diego en hann og Helgi hefðu starfað saman í Kaupþingi á árunum fyrir hrun. 

Landsréttur hafnaði öllum þessum ástæðum. Dómurinn taldi ekkert benda til þess að Helgi bæri kaldan hug til skiptastjórans og þá gæti kvörtun til nefndar um dómarastörf ekki valdið vanhæfi dómara.

„Slíkt túlkun [...] gæti stuðlað að því að málsaðili sem vill losna við dómara úr máli stuðli beinlínis að vanhæfi dómarans með því að bera hann þungum sökum að ósekju. Með þeim hætti gætu málsaðilar í raun valið sér dómara sem er andstætt grunnsjónarmiðum í réttarfari um úthlutun dómsmála til dómara,“ segir í úrskurðinum.

Hvað tenginguna við Bjarka Diego varðar sagði Landsréttur að meira en ellefu ár væru liðin frá því að þeir störfuðu saman hjá Kaupþingi. Ekkert lægi fyrir um sérstök vina- eða hagsmunatengsl þeirra á milli. 

Því var kröfu Sveins Andra hafnað. Þá ber honum að greiða kröfuhöfum þrotabúsins samtals 720 þúsund krónur í kærumálskostnað.