Skiptafundur í þrotabúi Fjölnisvegar 9 ehf. verður haldinn 7. desember næstkomandi, samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Félagið var í eigu Hannesar Smárasonar áður en Landsbankinn tók það yfir.

Guðrún Bergsteinsdóttir hdl., skiptastjóri búsins, vildi lítið tjá sig um skiptalok búsins þegar Viðskiptablaðið ræddi við hana og sagði niðurstöðurnar fyrir kröfuhafa. Hún svaraði því játandi að kröfur væru háar í búið og sagði heilmikið til fyrir þeim. Að öðru leyti vildi Guðrún ekki tjá sig um málið.

Í október var greint frá því í DV að Hannes hafi sjálfur gert kröfu í þrotabúið en þeirri kröfu hafi verið hafnað. Þegar Landsbankinn tók félagið yfir hélt það um tvær fasteignir, íbúð í London og fasteign að Fjölnisvegi 11. Þær hafa verið seldar og eru engar fasteignir í búinu í dag.

Íbúðin í London var seld um mitt ár 2011 og þá keypti útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson fasteignina að Fjölnisvegi 11 í upphafi árs.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.