Töluverð viðbrögð urðu á skuldabréfamarkaði í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans nú í morgun og hefur verið þó nokkur kaupþrýstingur, sérstaklega á óverðtryggð bréf, nú í morgunsárið. Þetta kemur fram í Morgunkornum Íslandsbanka. Velta með ríkisbréf hefur verið töluvert myndarleg og hafa þau skipt um hendur fyrir 3,2 ma.kr. Velta með íbúðabréf hefur verið mun minni, en hún nemur rúmum 700 m.kr. það sem af er morgni. Þegar þetta var ritað (kl. 10:30) hefur krafan lækkað mest á RIKB12, þ.e. um 12 punkta, og stendur hún nú í 3,45%. Næstmest hefur kröfulækkunin verið á RIKB31 sem er lengsti flokkur óverðtryggðra ríkisbréfa en krafan hefur lækkað um 10 punkta og stendur nú í 7,98%. Annars hefur lækkunin verið á bilinu 5-8 punktar á öðrum óverðtryggðum ríkisbréfum. Krafan á verðtryggðum bréfum hefur lækkað aðeins minna, eða um 5-6 punkta í morgun. Verðbólguálag á markaði hefur því lítillega lækkað það sem af er degi en það er nú 5,05% til 7 ára.