Héraðsdómur hefur vísað frá öllum kröfum Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) gegn netversluninni Sante ehf., Santewines SAS og Arnari Sigurðssyni, eiganda fyrirtækjanna. Frá þessu greinir Arnar á Facebook og lýsir niðurstöðunni sem áfangasigri fyrir ísenskum neytendum. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp niðurstöðu í málinu í dag.

ÁTVR lagði fram stefnuna í september og fór fram á að Sante myndi hætta allri smásölu áfengis að viðlögðum dagsektum og til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Í stefnu ÁTVR sagði að ekki væri af öðru að ráða en að persónulegt virðisaukaskattsnúmer Arnars væri notað vegna smásöluviðskiptanna og hélt því fram að Arnar hefði ekki leyfi til innflutnings áfengis né heildsölu.

Sjá einnig: Ráðherra hefði þurft að höfða málin

„Í næstum því eitt ár hefur franska netverslunin Sante.is fært íslenskum neytendum hagstæðara vöruverð án milligöngu ÁTVR. Versluninni hefur verið vel tekið en frá því rekstur hennar hófst hefur ÁTVR reynt með ýmsum leiðum að stöðva starfsemina,“ skrifar Arnar á Facebook.

„Lagðar hafa verið fram kærur til lögreglum, verslunin vænd um skattsvik og sendar tilkynningar til þeirra aðila sem fara með eftirlit með áfengislögum. Því til viðbótar hefur ÁTVR sent erindi til þess ráðuneytis sem fer með yfirstjórn málaflokksins. Þessir aðilar hafa ekki séð neina ástæðu til þess að grípa til neinna aðgerða gagnvart netversluninni.“

Í samtali við Fréttablaðið í dag sagði Birgir Már Björnsson, lögmaður Sante.is, að niðurstaða héraðsdóms komi honum ekki á óvart. Hún staðfesti að öllu leyti það sem haldið var fram fyrir dómi um að ÁTVR hafi tekið sér vald sem stofnunin hefur ekki. Birgir telur að fá dæmi séu í íslenskri réttarsögu um viðlíka vísvitandi heimildarskort stjórnvalds í eigin málarekstri fyrir dómstólum.