*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 30. júlí 2019 16:34

Krónan ekki sterkari frá því í apríl

Íslenska krónan hefur styrkst um meira en 5% gagnvart pundinu síðustu vikuna. Hlutabréfaviðskiptin rétt yfir 300 milljónum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslenska krónan hefur ekki verið jafnsterk frá því í apríl síðastliðnum gagnvart helstu viðskiptamyntum Íslands, en leita þarf til ársbyrjunar ef horft er til styrkingar krónunnar gagnvart breska sterlingspundinu. Í dag hefur evran lækkað um 0,59% gagnvart krónunni, Bandaríkjadalur um 0,65%, breska pundið um 1,17%. Mesta lækkunin var hjá sænsku krónunni sem nam 1,47%.

Minna var hins vegar að gerast á hlutabréfamarkaði heldur en gjaldeyrismörkuðum, en úrvalsvísitalan lækkaði rétt um 0,01% í 2.109,07 stig, og námu heildarviðskiptin einungis 303,4 milljónum króna. Hækkaði gengi Eimskipafélagsins mest, eða um 1,12%, í 54 milljóna viðskiptum og fór gengið í 180,50 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa HB Granda, eða um 1,42% í þó ekki nema 560 þúsund króna viðskiptum, og fór gengið niður í 34,65 krónur. Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka, eða fyrir 79 milljónir króna, en bréf bankans lækkuðu um 0,52%, niður í 76,90 krónur.

Styrktist frá miðjum júlí

Styrking krónunnar á gjaldeyrismörkuðum síðustu vikuna hefur verið á bilinu 3 til 5% gagnvart helstu viðskiptamyntum Íslands. Þannig er miðgengi krónunnar gagnvart evrunni nú 135,3 krónur í einni evru, og þarf að fara aftur til 12. apríl síðastliðinn til að finna sterkara gengi þegar evran fékkst fyrir 135,2 krónur.

Veiktist gengið jafnt og þétt síðan þá, þangað til það náði sínu veikasta punkti gagnvart evrunni fimmtudaginn 13. júní síðastliðinn þegar evran var á 141,7 krónur. Síðan þá hefur gengið verið nokkuð stöðugt þangað til 17. júlí síðastliðinn, en síðan hefur það styrkst á ný, þar af töluvert mikið síðustu vikuna.

Á þriðjudaginn síðasta var gengið 139,9 krónur, en styrktist skarpt á seinni hluta síðustu viku og hefur svo styrkst jafnt og þétt síðan og nemur hækkunin nú 3,3%.

Væntingar um amningslausa útgöngu veikir pundið

Svipaða þróun má sjá, þó ekki jafndramatíska, gagnvart Bandaríkjadal, en þar þarf að leita aftur til 26. apríl síðastliðinn til að sjá svipaðar tölur og nú, en gengið nú er 121,37 krónur.

Líkt og með evruna hefur gengið styrkt skarpast síðan á þriðjudag í síðustu viku, eða úr 125,12 krónum á dalinn í 121,37 krónur, eða sem samsvarar rétt tæplega 3%. Enn lengra þarf að líta aftur til styrkingar krónunnar gagnvart breska pundinu sem nú er komið í 147,92 krónur, eða aftur til 3. janúar síðastliðinn.

Síðan Boris Johnson tók við forsætisráðuneytinu þar í landi hefur pundið veikst gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum vegna aukinna væntinga um að ekki verði búið að tryggja fríverslun milli Bretlands og ESB ríkjanna þegar landið gengur úr sambandinu 31. október næstkomandi.

Hefur gengi krónunnar styrkst frá 155,89 krónur á pundið á þriðjudaginn, sem samsvarar 5,1% styrkingu til dagsins í dag. Loks má sjá að styst þarf að leita aftur síðan íslenska krónan var jafnsterk gagnvart sænsku krónunni, sem kostar nú 12,717 krónur, eða til mánudagsins 13. maí. Styrkingin gagnvart sænsku krónunni nam nærri 4%, eða úr 13,243 krónum í 12,717 krónur.