Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum annan viðskiptadaginn á mörkuðum í röð, en það gerði hún líka á föstudag fyrir helgi .

Nú var veikingin nokkru minni en þá eða um 0,37% í tilviki evrunnar sem nú fæst á 163,16 krónur, Bandaríkjadalurinn veiktist um 0,23%, og fæst á 140,22 krónur, breska pundið veiktist um 0,56%, niður í 181,05 krónur og japanska jenið veiktist um 0,47%, niður í 1,3377 krónur. Mest veiking var á norsku krónunni eða um 0,72%, niður í 14,637 krónur.

Lítil viðskipti með hvert félag

Einungis 193,7 milljóna króna viðskipti voru með bréf þess félags sem mest viðskipti voru með á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi, af 1,1 milljarða króna heildarviðskiptum sem hækkuðu Úrvalsvísitöluna um 0,53%, upp í 2.232,29 stig.

Einungis bréf Sýnar hækkuðu meira en bréf Haga, eða um 1,71% á móti 1,66%, en í mjög litlum viðskiptum eða fyrir 1 milljón króna, og fór gengi Sýnar í 35,60 krónur í þeim, meðan bréf Haga fóru í 55,20 krónur.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun byrjuðu Hagar á nýrri endurkaupaáætlun eigin bréfa fyrir hálfan milljarð króna í dag, en félagið hætti fyrri áætlun um endurkaup áður en upphaflega var ætlað eftir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Þriðja mesta hækkunin var svo á bréfum annars fyrirtækis á matvöru- og olíusölumarkaði, Festi, eða um 1,16%, upp í 152,75 krónur, í 118 milljóna króna viðskiptum. Það dugði þó ekki til að komast í röð þeirra þriggja fyrirtækja sem voru í mestu viðskiptunum, en auk Haga voru það Iceland Seafood og TM.

Viðskiptin með bréf Iceland Seafood námu 149,5 milljónum króna, en þau lækkuðu um 0,79% í þeim sem var þriðja mesta lækkunin í viðskiptum dagsins á einu bréfi og fór gengið niður í 8,80 krónur í þeim. Viðskiptin með bréf TM námu 142,4 milljónum króna, en þau hækkuðu um 0,37% í þeim, upp í 40,55 krónur.

Icelandair 11% undir útboðsgenginu

Mest lækkun var á bréfum Origo á hlutabréfamarkaði í dag, eða um 2,30%, í litlum viðskiptum þó eða fyrir 21 milljón krónur, og fór gengið niður í 34 krónur í þeim. Næst mest lækkun var svo á bréfum Icelandair, eða um 1,11%, og eru þau þar með komin niður í 0,89 krónur, sem er 11 aurum undir útboðsgenginu um miðjan september.