*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 18. júlí 2021 20:05

Krónan krefur ríkið um milljarð

Krónan vill bætur vegna ólöglegra innflutningshamla á kjöti, eggjum og mjólkurvörum. Milljarðar til viðbótar gætu fallið á ríkið tapi það málinu.

Ingvar Haraldsson
Aðsend mynd

Krónan fer fram á ríflega milljarð króna í bætur frá íslenska ríkinu vegna meints hagnaðarmissis fyrirtækisins á árunum 2015 til 2018 vegna innflutningshamla á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum sem brutu í bága við EES-samninginn.

Falli dómur Krónunni í vil má vænta milljarða bótakrafa til viðbótar frá fyrirtækjum í sömu stöðu. „Vegna ákvæða laga og reglugerða var í raun ekki hægt að flytja inn til landsins hrátt kjöt, hrá egg og mjólkurvörur unnar úr ógerilsneiddri mjólk. Það voru skilyrði um að vörurnar þyrftu að sæta hitameðferð eða frystingu. Þetta fyrirkomulag var talið andstætt EES-samningnum í dómi Hæstaréttar og tveimur dómum EFTA-dómstólsins,“ segir Flóki Ásgeirsson, lögmaður Krónunnar í málinu.

Málið fordæmisgefandi

Samtök verslunar og þjónustu kvörtuðu upphaflega til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, árið 2011 vegna innflutningstakmarkana. EFTA-dómstólinn dæmdi ríkið brotlegt í málinu árið 2017. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu í máli Ferskra kjötvara, dótturfélags Haga, gegn ríkinu árið 2018. Íslenska ríkið var þá dæmt til að endurgreiða Ferskum kjötvörum útlagaðan kostnað eftir að hafa verið meinað að flytja inn hráar nautalundir frá Hollandi árið 2014.

„Það er ljóst að niðurstaða málsins verður fordæmisgefandi á ýmsan hátt,“ segir Flóki um mál Krónunnar gegn ríkinu. Hingað til hafi verið farin sú leið í sambærilegum málum að krefja ríkið um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði en ekki fá bættan hagnaðarmissi fyrirtækjanna. Bótakrafa Krónunnar byggir á mati dómkvadds matsmanns sem skilaði niðurstöðu sinni í febrúar. „Niðurstaða matsmannsins var að miðað við verð á innlendum markaði á þessum aðföngum og svo á innri markaði EES-svæðisins hefði hagnaðarmissir Krónunnar numið ríflega milljarði króna,“ segir Flóki. 

Milljarðar til viðbótar gætu fallið á ríkið

Tapi íslenska ríkið málinu gegn Krónunni má vænta þess að önnur fyrirtæki fari sömu leið og Krónan þar sem þau gætu átt milljarða bótarétt til viðbótar. „Það er mikið í húfi. Vinnist mál af þessu tagi þar sem hægt er að sýna fram á bótaskyldu vegna hagnaðarmissis á grunni brota á EES-samningnum gæti það leitt af sér umtalsverðar bótakröfur í sambærilegum málum. Það er ljóst að fleiri aðilar eru í svipaðri stöðu og Krónan. Það má einnig velta fyrir sér öðrum brotum ríkisins gegn EES-samningnum,“ segir Flóki. 

Bótum verði skilað til neytenda

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir málið snúast um að tryggja rétt íslenskra neytenda á grunni EES-samningsins. „Hömlur á innflutningi sem styðjast ekki við lög, koma niður á viðskiptavinum okkar í formi hærra vöruverðs. Verði bótakrafan samþykkt munum við að sjálfsögðu tryggja að sú fjárhæð skili sér til viðskiptavina Krónunnar. Við leggjum ávallt áherslu á að bjóða viðskiptavinum okkar hagstæðasta vöruverðið og erum því vakandi yfir öllu sem vinnur gegn því,“ segir Ásta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér