*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 4. desember 2007 17:53

Krónan lækkar um 4,8%

Ritstjórn

Gengi íslensku krónunnar lækkaði um 4,8% í nóvembermánuði sem er mesta veiking krónunnar á einum mánuði á þessu ári, segir greiningardeild Glitnis.

"Engu að síður hefur gengið hækkað um 6,2% frá áramótum enda hefur krónan verið í styrkingarham mestallt árið. Frá áramótum til 24. júlí styrktist krónan um 12,3% en um það bil helmingur þeirrar hækkunar hefur nú gengið til baka. Við lok markaða í gær stóð gengisvísitalan í 118,9 stigum og er á svipuðum slóðum og í febrúarlok en þá var gengisvísitalan í kringum 119 og hækkun gengis krónunnar frá áramótum nam 6%," segir hún.

Greiningardeildin segir að það sé fyrst og fremst lausafjárkrísan og áhrif undirmálslánavandræða sem hafi valdið lækkun á gengi krónunnar undanfarna mánuði.

"Gengi krónunnar hefur lækkað um 7% síðan  24. júlí þegar lausafjárkrísan  braust út og um 4,8% í nóvember, eins og áður segir, þrátt fyrir óvænta stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun mánaðarins, en bankinn hækkaði vexti sína um 0,45 prósentustig og eru vextir nú 13,75%. Ástæðan fyrir veikingu krónunnar í síðasta mánuði er aukin áhættufælni fjárfesta og viðsnúningur á vaxtamunarviðskiptum. Engu að síður teljum við að hátt vaxtastig hér á landi og mikill vaxtamunur við útlönd, muni stuðla að því að krónan styrkist á ný, svo fremi að áhættufælni minnki á mörkuðum á ný." Greiningardeildin segir að á meðan vextir haldast háir hér á landi og vaxtamunur er jafnhár og raun ber vitni, muni krónan eiga sér talsvert viðnám gegn frekari veikingu. "Vaxtamunur  við útlönd mun líklega aukast tímabundið á næstunni m.a. vegna vaxtalækkana í Bandaríkjunum, en 11.desember er næsta vaxtaákvörðun í Bandaríkjunum þar sem búist er við þriðju vaxtalækkuninni í röð, en stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 4,5%,"  segir hún.

Á morgun tilkynna Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki um stýrivaxtaákvarðanir sínar og er í báðum tilvikum búist við óbreyttum vöxtum, 4% á evrusvæðinu og 5,75% í Bretlandi, þótt ekki sé útilokað að vextir verði lækkaðir í Bretlandi, að sögn greiningardeildarinnar. "Til lengri tíma litið mun vaxtamunurinn við útlönd þó að öllum líkindum dragast saman."