Vinnslustöðin hefur selt allan hlut sinn, 45%, í Stillu í samræmi við ákvörðun stjórnar félagsins þar að lútandi 5. maí 2006, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Krosseignatengsl Vinnslustöðvarinnar og Stillu hafa þar með verið rofin.

Söluverð eignarhlutarins er 417 milljónir króna og fæst greitt annars vegar með hlutabréfum í Vinnslustöðinni að nafnverði 53.836.000 krónur á genginu 4,15 og hins vegar í peningum, alls 193 milljónum króna. Söluhagnaður Vinnslustöðvarinnar af þessum viðskiptum nemur 65 milljónum króna.

Eigin hlutir Vinnslustöðvarinnar hf. nema eftir viðskiptin 122.920.519 króna að nafnvirði eða sem svarar til 7,85% eignarhlutar. Jafnframt skal þess getið að í dag, 16. júní, greiðir Vinnslustöðin hf. út arð í eigin bréfum að fjárhæð 65 milljónir króna að nafnvirði, þar af liðlega 62 milljónir króna til almennra hluthafa (tæplega 3 milljónir króna koma í hlut Vinnslustöðvarinnar sjálfrar vegna eigin hlutabréfa). Við það lækkar eigin eignarhlutur félagsins samsvarandi.

Eftir viðskiptin er eignarhlutur Stillu ehf. í Vinnslustöðinni 270.297.521 krónur að nafnvirði eða 17,27%
Hjálmar Kristjánsson, stjórnarmaður í Vinnslustöðinni, og Guðmundur Kristjánsson, varastjórnarmaður í Vinnslustöðinni, eru báðir í stjórn Stillu ehf.