Íslensk fiskiskip hafa fengið úthlutað aflamarki í Barentshafsþorski fyrir árið í ár. Aflaverðmæti verður væntanlega um það bil einn milljarður króna, miðað við gengi krónunnar og afurðaverðs í dag, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Kvóti íslensku skipanna verður 5.835 tonn af slægðum þorski, 3.591 tonn í lögsögu Noregs en 2.244 tonn í lögsögu Rússlands. Þetta er tæplega 3% minni kvóti en í fyrra en þá fengu Íslendingar úthlutað 6.014 tonnum, segir greiningardeildin.

Kvótahæsta fyrirtækið í Barentshafi í ár er HB Grandi með 1.045 tonn (17,9% af heildarúthlutun), því næst kemur FISK Seafood á Sauðárkróki með 713 tonn (12,2%) og þá Þormóður rammi með 706 tonn (12,1%).

Íslendingar fá hlutdeild af kvótanum samkvæmt svokölluðum Smugusamningi frá árinu 1999.