*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 19. mars 2015 14:40

Kylfingar leggjast gegn seinkun klukkunnar

Seinkun klukkunnar mun fela í sér tekjutap fyrir golfklúbba og skerða rekstrargrundvöll þeirra.

Ritstjórn
Haukur Örn Birgisson er forseti Golfsambands Íslands.
Aðsend mynd

Golfsamband Íslands leggst, að hluta til, eindregið gegn þeim breytingum sem lagðar eru til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um seinkun klukkunnar og bjartari morgna. Þetta kemur fram í umsögn GSÍ sem send var til Velferðarnefndar Alþingis og greint er frá á vefsíðu sambandsins.

Í umsögn GSÍ kemur meðal annars fram að fyrirhuguð breyting muni hafa gríðarleg áhrif á nýtingu íþróttamannvirkja yfir sumarmánuðina og skerða möguleika fólks til að leika golf eða stunda aðrar íþróttir úti við. Þar er einnig bent á að breytingin muni fela í sér mikið tekjutap fyrir golfklúbba og skerða rekstrargrundvöll þeirra.

„Ef seinkun klukkunnar yrði að veruleika með þeim hætti sem lagt er til í þingsályktunartillögunni, skerðast verulega möguleikar kylfinga og annars íþróttafólks til að stunda íþróttir síðdegis og fram á kvöld og mun nýting íþróttamannvikja því dragast saman. Sá tími sem tapst á kvöldin vinnst ekki upp á morgnana, þar sem ólíklegt verður að teljast að íþróttaástundun hefjist klukkustund fyrr á morgnana. Þá er veðurfar með þeim hætti hér á landi að síðdegis lægir og því oft bestu skilyrðin til að njóta útveru síðdegis og fram eftir kvöldi. Þá er ljóst að íþróttakappleikir, sem fara fram á kvöldin, yrðu að styðjast við flóðlýsingu með tilheyrandi kostnaði,“ segir meðal annars í umsögninni sem Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambandsins, skrifar undir.

Lesa má umsögnina í heild sinni hér.