*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 7. mars 2018 09:21

Kynbundinn launamunur dregst saman

Hagstofan segir óskýrðan launamun kynjanna hafa farið úr 4,8% í 3,6% á tímabilinu 2008 til 2016.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Launamunur kynjanna hefur farið stöðugt minnkandi á tímabilinu 2008 til 2016, en Hagstofa Íslands hefur gert rannsókn á launamun kynjanna í samvinnu við aðgerðarhóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.

Fór óskýrði launamunurinn úr 4,8% á árunum 2008 til 2010 í 3,6% á árunum 2014 til 2016. Ef einungis er horft til ársins 2008 voru konur að jafnaði með 6,6% lægri laun en karlar en leiðréttur munur minnkaði í 4,5% árið 2016, metið með hefðbundinni aðhvarfsgreiningu fyrir hvert ár.

Fyrir allt tímabilið 2008 til 2016 var óskýrður launamunur 4,8% en skýrður launamunur nam 7,4%, en sá síðarnefndi segir til um hver stór hluti launamunar skýrist af þeim skýringarþáttum sem lagðir eru til grundvallar í greiningunni en óskýrður stendur fyrir þann launamun sem ekki tókst að skýra. 

Hagstofan tekur fram að erfiðleikum bundið sé að finna eiginlegan launamun sem eingöngu megi rekja til kyns, enda séu margir óvissuþættir. 

Rannsókn á launamun kynjanna 2008-2016 byggir á gagnasafni Hagstofunnar þar sem launagögn eru auðguð með lýðfræðiupplýsingum. Gagnasafnið byggir á 615 þúsund athugunum á launum einstaklinga á aldrinum 18-67 ára yfir allt tímabilið.