Eigendur grískra ríkisskuldabréfa verða að afskrifa allt að 60% af kröfum sínum. Þetta er tillaga sem Vittorio Grilli, fjármálaráðherra Ítalíu, bar fram á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna um helgina. Hún er talin njóta nokkurs fylgis, ekki síst á meðal þýskra ráðamanna sem hafa talað fyrir keimlíkum aðgerðum til að létta á skuldum Grikklands.

Þetta eru talsvert meiri afskriftir en áður hafa komið til greina, svo sem 40% afskrift krafna og lenging í lánum.

Fundað var um skuldavanda Grikkja og skuldakreppuna á evrusvæðinu um helgina. Svo til engin niðurstaða náðist á fundunum og verður þeim haldið áfram á morgun.

Þjóðverjar hafa verið tregir til að taka á sig kostnað við skuldaniðurfærslu Grikkja og talað fyrir því að lánardrottnar Grikkja bíti í súra eplið. Financial Times segir að Frakka, evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vera að færast nær skoðu Þjóðverja og styðja það að lánardrottnar Grikkja taki á sig frekari byrðar í stað skattgreiðenda. Þeir hinir sömu hafi hins vegar áhyggjur af því að afskriftirnar hafi bæði neikvæð áhrif á evrópska banka og fjármálafyrirtæki og skuldatryggingarmarkaðinn. Erfitt sé hins vegar að segja til um áhrifin á síðasttalda markaðinn þar sem hann er ógagnsær.

Verðmæti grískra skuldabréfa að mestu í eigu evrópskra banka nemur rétt rúmum 200 milljörðum evra, samkvæmt upplýsingum Financial Times.