Áætluð útgáfa skuldabréfa Lánasjóðs sveitarfélaga árið 2010 til fjármögnunar nýrra útlána er 7 – 9 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lánasjóð sveitarfélaga en sjóðurinn lánar eingöngu það fé sem hann hefur fengið að láni, því veltur áætlun um útlán alfarið á því hvernig gengur að afla lánsfjár á árinu að því er fram kemur í tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur fram að útgáfa sjóðsins mun nema 4-5 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins en 3-4 milljörðum króna á seinni helmingi ársins.

Þá áætlar lánasjóðurinn að greiða lánadrottnum sínum u.þ.b. 7,5 milljarða króna árið 2010. Þannig verði greiddir um 5 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins sem skiptist jafnt á milli innlends og erlends gjaldeyris, og um 3,5 milljarða á seinni hluta ársins.

Lánasjóðurinn áætlar að afborganir sveitarfélaga af lánum til lánasjóðsins verði u.þ.b. 8 milljarðar króna árið 2010 og skiptist það jafnt á milli árshluta. Af þessum 8 milljörðum koma 2 milljarðar til vegna afborgana í erlendri mynt.

„Áætlun þessi miðast við núverandi aðstæður á markaði. Verði breytingar á markaðsaðstæðum má reikna með að ofangreind áætlun geti breyst. Lánasjóður sveitarfélaga endurskoðar áætlanir sínar hálfsárslega og oftar ef þörf krefur,“ segir í tilkynningunni.