*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Innlent 27. apríl 2020 18:59

Lánastofnunum fært opinbert vald

Að mati Ríkisendurskoðunar er mögulegt er að stuðningslán ríkisstjórnarinnar höggvi nærri skilyrðum sem stjórnarskráin setur.

Jóhann Óli Eiðsson
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisendurskoðandi, ritar undir umsögnina.
Haraldur Guðjónsson

Nær útilokað er að sjá fyrir öll álitamál varðandi ríkisábyrgðir á lánveitingum til smærri fyrirtækja vegna veirufaraldursins. Fyrirkomulagið gæti dregið úr ábyrgðar- og varúðarhegðun lánastofnana. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Ríkisendurskoðunar við frumvarp til fjáraukalaga sem nú er til meðferðar þingsins. 

Í liðinni viku kynnti ríkisstjórnin svokallaðan aðgerðarpakka 2.0 vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í efnahagslífinu sökum útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur Covid-19. Meðal þess sem finna mátti í þeim pakka var 6 milljón króna lánafyrirgreiðsla til lítilla fyrirtækja, það er fyrirtækja með minni veltu en 500 milljónir á ári, þar sem endurgreiðsla vaxta og höfuðstóls voru tryggð með ríkisábyrgð. 

Skilyrði fyrir umræddri lánveitingu eru að tekjur á 60 daga tímabili, frá 1. mars til 30. september 2020, launakostnaður hafi verið að minnsta kosti 10% á árinu 2019, sé ekki í vanskilum við hið opinbera eða einkaaðila sem staðið hafa lengur en 90 daga, hafi staðið skil á skattskýrslum og að ætla megi að fyrirtækið verði enn rekstrarhæft að þessu ástandi loknu. Þá er einnig skilyrði að ekki komi til arðgreiðslna, óumsaminna kaupauka, kaupa á eigin bréfum eða greiðslna af víkjandi lánum fyrir gjalddaga svo dæmi séu tekin.

Matskennd skilyrði hverfi að mestu

„Þetta fyrirkomulag gerir í reynd ráð fyrir að lánastofnanir veiti lán að tilteknum skilyrðum uppfylltum [...] Til umhugsunar er hvort að með þessum hætti sé í reynd verið að fela einkaaðilum að fara með tiltekið opinbert vald [...] Hvaða rétt gæti það skapað hjá viðkomandi rekstraraðilum sem ekki kynnu að fá lán?“ segir í umsögn Ríkisendurskoðunar.

Stofnunin telur brýnt að ekki fari á milli mála að ríkisábyrgð falli niður á láninu ef fjármálafyrirtæki víkur frá þeim skilyrðum sem þingið setur. Ábyrgð á slíku verði ekki lögð á ríkið ef viðkomandi lendir í vanskilum. Ýmis álitamál séu hins vegar uppi og erfitt sé að ímynda sér mörg þeirra. 

„Um er að ræða afar óvenjulega ráðstöfun sem leiðir hugann að því hvort ákvæði 3. gr. frumvarpsins [...] uppfylli 40. gr. stjórnarskrárinnar. Ríkisendurskoðun gengur út frá að þess hafi verið gætt við samningu frumvarpanna og þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru uppi geri að verkum að ákvæði stjórnarskrárinnar standi ekki í vegi fyrir því að skipa málum með þessum hætti,“ segir í umsögninni. 

Ríkisendurskoðun bendir einnig á að full ríkisábyrgð á lánum geti dregið úr ábyrgðar- og varúðarhegðun sem lánastofnun ber almennt að beita við lánveitingar. Skilyrðin þurfi því að vera hlutlægari en ella og matskenndum skilyrðum þurfi að eyða eins og kostur sé á. 

Nýtist aðeins örfyrirtækjum

Aðgerðapakkinn hefur verið gagnrýndur nokkuð kröftuglega fyrir að beinast í of stórum mæli að litlum fyrirtækjum, þ.e. eingöngu þeim sem eru með minni veltu en 500 milljónir króna árlega. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins (SA) er bent á að samkvæmt lögum um ársreikninga teljir fyrirtæki með undir 1,2 milljarða króna í veltu vera lítil fyrirtæki. Aðgerðin nú nýtist því fyrst og fremst örfyrirtækjum. 

„Samkvæmt tölum frá Creditinfo úr ársreikningum fyrirtækja fyrir árið 2018 ná þessi lán aðeins til 15% viðskiptahagkerfisins miðað við ársveltu. Eftir standa því 85% viðskiptahagkerfisins sem lánin ná ekki til. [...] Í ljósi þess hversu víðtæk áhrif Covid-19 faraldurinn hefur á íslenskt atvinnulíf er óheppilegt að horft sé fram hjá svo stórum hluta viðskiptahagkerfisins,“ segir í umsögn SA. 

Upphæðin, 6 milljónir króna, þykir síðan nokkuð smá að mati SA og kæmi hún aðeins til með að nýtast örfyrirtækjum. Fyrirtæki með 500 milljónir króna í veltu geti aðeins tekið lán fyrir um prósentu af ársveltunni. Leggja samtökin því til að stuðningslánin nái til fyrirtækja með tekjur undir 1,2 milljarði króna ársgrundvelli og að lánsfjárhæð taki mið af rekstrarkostnaði í beinu hlutfalli við tekjufall.