Landsbanki Íslands í London hefur lokið fjármögnun á kaupum fjárfestingasjóðanna Advent International og Change Capital á fyrirtækjum á Spáni og Ítalíu, en þegar bankinn hóf starfsemi í Bretlandi hafði starfsstöðin takmarkað leyfi til útlána í Suður- og Austur-Evrópu. Það má segja að til að byrja með hafi bankinn hafi ekki viljað lána suður fyrir bresku borgina Dover, að Þýskalandi undanskildu.

Sigurjón Árnason, annar bankastjóra Landsbankans, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær, að bankinn líti nú á Vestur-Evrópu sem eitt markaðssvæði. "Starfsmenn bankans í London koma víða að og hafa tengsl inn í fjárfestingasjóðina og heimalönd sín," segir Sigurjón. Hann bætir við að alþjóðlegt starfsumhverfi London-starfseminnar gefi bankanum aukna breidd og möguleika á viðskiptum í flestum Vestur-Evrópulöndum.

Annars vegar fjármagnar bankinn kaup breska fjárfestingasjóðsins Change Capital á fjórum raftækjaverslunarkeðjum, sem sjóðurinn mun sameina í eitt félag. Fyrirtækin fjögur eru Radio Castilla, Condigesa, UCASA og Grupo Noain. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp né upphæð fjármögnunarinnar, en samalagðar tekjur fyrirtækjanna nema einum milljarði evra, eða rúmlega 88 milljörðum króna.

Hins vegar fjármagnar Landsbankinn kaup bandaríska fjárfestingasjóðsins Advent International á ítalska netfyrirtækinu Venere, sem sérhæfir sig í hótelbókunum á netinu og er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu. Nánari upplýsingar voru ekki fáanlegar þegar Viðskiptablaðið fór í prentun.

"Það var töluverð áskorun að ljúka tveimur viðskiptum á einungis tveimur mánuðum. Sveigjanleiki og hröð ákvörðunartaka innan Landsbankans gerði okkur kleift að klára viðskiptin á skömmum tíma," segir Rachel Jones, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum í London.

Fjármögnun kaupanna á Spáni eru stærstu viðskipti Landsbankans á Spáni til þessa, segir Rachel. "Og viðskiptin á Ítalíu gefa okkur tækifæri á því að ná tengslum við fleiri fjárfestingasjóði [...] og eru mikilvægt skref til að styrkja stöðu bankans á hratt vaxandi markaði á Ítalíu."