Talið er að Landsbanki Íslands og Kaupþing banki hafi áhuga á að kaupa breska verðbréfafyrirtækið William de Broe. Greint var frá þessu í breskum fjölmiðlum um helgina.

Hollenski bankinn ING Bank hefur ákveðið að selja fyrirtækið, sem er eitt elsta sinnar tegundar í Bretlandi, og er metið á 30-40 milljónir punda (3,8-5,1 milljarðar íslenskra króna).

Breski keppinauturinn Evolution er einnig talinn hafa áhuga á að taka yfir William de Broe.

Landsbankinn hefur keypt þrjú erlend verðbréfafyrirtæki á síðustu tveimur árum ? breska félagið Theather & Greenwood, evrópska miðlunarhúsið Kepler Equities og írska fyrirtækið Merrion Capital.

Kaupþing hefur sagt að bankinn hafi áhuga á að kaupa breskt verðbréfafyrirtæki og hefur meðal annars verið orðaður við Evolution, sem einnig er sagt hafa áhuga á William de Broe.