Vegna umræðu um sölu Landsbankans á hluta hans í Borgun hefur bankinn tekið saman upplýsingar um söluna og birt á heimasíðu sinni. Auk þess ætlar bankinn að afhenda Alþingi samantekt um málið.

Í upplýsingunum kemur m.a. fram að bankinn hafi ekki haft upplýsingar um að valréttur vegna hugsanlegar yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe myndi leiða til greiðslna til Borgunar. Þetta hafði heldur ekki komið fram í tengslum við önnur viðskipti með hluti í Borgun á árunum 2009-2014. Í viðræðum Landsbankans við meirihlutaeiganda Valitor, Arion banka, lágu fyrir upplýsingar um réttindi Valitor í tengslum við valréttinn, þótt útilokað hafi verið að leggja áreiðanlegt mat á verðmætin á þeim tímapunkti.

Gerðu ekki grein fyrir réttindunum

Borgun gerir upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og ber því að færa slík réttindi á gangvirði á hverjum tíma. Borgun mat slík réttindi ekki til eignar og gerði ekki grein fyrir þeim í sínum ársreikningum eða í upplýsingagjöf til Landsbankans. Bendir til þess að Borgun hafi á þeim tíma ekki átt tilkall til réttindanna, þau hafi ekki verið til staðar eða þau væru það óljós að ekki væri hægt að reikna þau til verðmætis.

Áhættusöm erlend viðskipti

Landsbankanum var kunnugt um að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum. Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans. Bankinn byggði þetta mat sitt m.a. á fyrri útrásarsögu íslenskra kortafyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum Landsbankans margfölduðust erlend Visa-umsvif Borgunar á árinu 2015 miðað við það sem áður var. Langstærstur hluti fjárhæðarinnar sem Borgun á von á mun vera vegna viðskipta sem urðu eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í félaginu.

Fleiri viðskipti áttu sér stað með hluti í Borgun á árunum 2009-2014 en Landsbankinn veit ekki til þess að fyrirvarar um greiðslur vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe hafi verið gerðir í þeim viðskiptum, enda lágu ekki fyrir upplýsingar um þessi verðmæti.

Í Fréttablaðinu í morgun kom fram að bankaráð Landsbankans hefði ekki fundað sérstaklega vegna sölunnar á Borgun. Ráðið fundað samkvæmt reglulegri áætlun. Fjárlaganefnd Alþingis hefur boðað fulltrúa Bankasýslu ríkisins á fund nefndarinnar á miðvikudag þar sem sala eigna úr bönkunum verður til umræðu.