Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá því að ráðgert sé að Landsbankinn fjármagni áframhaldandi vinnu við smíði Tónlistarhússins út verktímann.

Þar er þó ekki verið að tala um öll önnur fyrirhuguð mannvirki, eins og gatnagerð, 400 herbergja hótel auk hótelíbúða, viðskiptamiðstöðina World Trade Center Reykjavík, höfuðstöðvar Landsbankans, verslanir, íbúðir, veitingahús og fleira.

Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar-TR, sagði á vb.is í gær að gert sé ráð fyrir að áframhaldandi fjármögnun byggingar Tónlistarhússins verði tryggð næstu mánuði með "brúarláni".

Miðað við að Landsbankinn fjármagni síðan áframhaldandi byggingu Tónlistarhússins má ætla að hann þurfi í það minnsta að útvega um 10 milljarða króna til að ljúka byggingu hússins. Ekkert hefur verið látið uppi um hvar bankinn á að fá þetta fjármagn.

Heildarkostnaður við byggingu hússins, fyrir utan önnur mannvirki á svæðinu, var í haust áætlaður um 18 milljarðar króna. Búið er að leggja um 10 milljarða í þetta verkefni í heild, þar af um 8 milljarða beinlínis vegna Tónlistarhússins. Vantar því enn um 10 milljarða króna til að ljúka við bygginguna sjálfa. Algjör óvissa er hins vegar um önnur fyrirhuguð mannvirki á svæðinu.

Samkvæmt upphaflegri framkvæmdaáætlun átti byggingu Tónlistarhússins að ljúka í desember á þessu ári. ÍAV stöðvaði framkvæmdir um áramótin vegna ógreiddra reikninga. Þeir reikningar eru greiddir en enn eru þó ýmis mál óleyst eins og yfirtaka Austurhafnar-TR á eignarhaldsfélaginu Portusi. Ef þau mál ganga upp er búist við um eins árs seinkun á verklokum eða meira.