Þrotabú Landsbankans í Lúxemborg getur ekki gengið að eignum viðskiptavina sinna á Spáni eftir að dómari í Denia fyrirskipaði að skjaldborg yrði slegið um eignir á Alicante. Þar með er væntanlega útséð með þann þátt í því sem talið hefur verið til útistandandi eigna þrotabúsins. Er þetta fyrsti varnarsigur samtaka sem nefna sig Landsbanki Victims Action Group og vonast þau til sömu niðurstöðu fyrir dómstólum á Marbella og Mallorca.

Á forsíðu Round Town News

Fjallað er um málið á blaðinu Round Town News á Costa Blanca. Þar segir m.a. að lögfræðingar spænsku lögmannastofunnar Martinez Echevarria Perez og Ferrero telji að lántakendur hafi verið sviknir hundruðum saman í viðskiptunum og undirbúi nú málsókn gegn Landsbankanum. Eru fórnarlömb bankans í þessu máli á Spáni talin vera um 800 talsins.

Slítum lappirnar af köngulónni

John Hemus, talsmaður Landsbanki Victims Action Group, sagði í samtali við RTN að nú stæðu þeir jafnfætis á leikvellinum. „Nú er sá tíminn runnin upp að við getum farið að slíta lappirnar af köngulónni.”

Málið snýst um lánafyrirkomulag sem var reyndar bannað í Bretlandi árið 1990. Landsbankinn lofaði viðskiptavinum að losa um fé sem bundið var í þeirra eignum með láni gegn veði í viðkomandi eign. Áttu viðskiptavinirnir að fá fjórðung áætlaðs verðmætis eignanna greiddan út til að bæta sína lausafjárstöðu. Afgangurinn átti að fara í fjárfestingarsjóðinn Lex Life. Voru viðskiptavinum talin trú um að fjárfesting í sjóðnum skilaði svo miklum arði í formi vaxta að hún gæti staðið undir öllum afborgunum af láninu og gott betur en það.

Sögð eintóm svik

Lögfræðingurinn Santiago de la Cruz heldur því fram að viðskiptin hafi ekki verið neitt annað en svik þar sem fjárfestum hafi verið lofað arði sem aldrei hafi verið hægt að standa undir. Það kom svo á daginn að þegar Landsbankinn fór á hausinn í haust hrundi þessi spilaborg með látum og viðskiptavinirnir á Spáni stóðu frammi fyrir því að missa allar sínar eigur í hendur þrotabúsins. Lögfræðingurinn Elena Lopez Sanchez tekur undir þetta og sagði talsmönnum Landsbanki Victims Action Group að hún vonaðist til að málsgögn yrði nú sent til Madríd til að tryggja samskonar niðurstöðu í öðrum slíkum málum.