365 hf. hefur gengið frá samkomulagi við Landsbanka Íslands um að sölutryggja 64% eignarhlut 365 hf. í Daybreak Acquisitions Ltd, sem á 100% eignarhlut í Wyndeham Press Group. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands.

Söluverð liggur ekki fyrir og er þetta liður í að létta á skuldum félagsins.

Í öðru lagi hefur Vodafone tekið yfir rekstur á dreifikerfi Digital Ísland sem hefur í för með sér að vaxtaberandi skuldir lækka um 650 milljónir króna. Í þriðja lagi hefur 365 selt 70% hlut í Hands Holding fyrir um 600 milljónir króna sem notaðar verða í niðurgreiðslu skulda. Að þessu loknu munu vaxtaberandi skuldir félagsins verða 8,1 milljarðar króna.

Í tilkynningu frá 365 kemur fram að félagið stefnir að sölu á eftirstandandi hlut í Wyndeham og Hands á næstu 12-24 mánuðum. Ef félagið nær að selja þessa eignarhluti á bókfærðu verða vaxtaberandi skuldir u.þ.b. 3 milljarðar króna bendir greiningadeild Glitnis á í Morgunkorni sínu.  "Mikilvægt er að félagið nái að selja þessar eignir á viðunandi verði. Gangi það eftir munu rekstrarforsendur breytast til mikils batnaðar," segir greiningadeild Glitnis.

Að loknum ofangreindum aðgerðum er gert ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir Dagsbrúnar nemi um 8.099 milljónum króna segir í tilkynningu félagsins.

Að auki stefnir 365 hf. að því á næstu 12 til 24 mánuðum að selja frá sér 36% eignarhlut í Daybreak Acquisitions sem ekki hefur verið sölutryggður. Jafnframt stefnir félagið að því að selja frá sér 30% eignarhlut sinn í Hands Holding. Bókfært verð þessara eigna er samtals 5.612 milljónir króna. Félagið mun ráðstafa söluandvirði eignanna til lækkunar skulda.