Landsmenn voru 319.575 talsins á Nýársdag og var það fjölgun um 1.123 á einu ári. Það jafngildir 0,4% fjölgun á milli ára. Konum fjölgaði nokkuð meira en körlum eða um 0,5% á móti 0,2%, samkvæmt samantekt Hagstofunnar.

Flestir landsmenn bjuggu á höfuðborgarsvæðinu um áramótin, 203.570 manns. Það jafngildir því að rétt tæp 64% landsmanna hafi búið þar á móti 36% á landsbyggðinni. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á milli ára, um 1.253. Það jafngildir 0,6% fjölgun á einu ári.

Mesta hlutfallslega fólksfjölgunin á landinu var á Suðurnesjum en þar fjölgaði íbúum um 0,7% á milli ára. Það jafngildir fjölgun um 154.

Á sama tíma var fólksfækkun á fjórum landsvæðum, mest á Norðurlandi vestra þar sem fækkaði um 194 manns, eða 2,6%. Umtalsverð fólksfækkun var einnig á Vestfjörðum en þar fækkaði um 82, eða 1,2%. Minni fólksfækkun var á Suðurlandi (0,2%) og Vesturlandi (0,1%), samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Hagstofan