*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 27. október 2020 12:43

Landsmönnum heldur áfram að fjölga

Íbúar landsins eru komnir í 368 þúsund, en þar af eru nærri 10 þúsund fleiri karlar. Íslenskir ríkisborgarar flytja aftur heim.

Ritstjórn
Fjöldi Íslendinga var samankominn á Þórsplani í Hafnarfirði til að fylgjast með landsleik, en þjóðinni heldur áfram að fjölga.
Haraldur Guðjónsson

Á þriðja ársfjórðungi ársins fjölgaði íbúum Íslands um 1.320 eða um 0,4%, en í lok fjórðungsins bjuggu 368.100 manns á landinu að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Karlarnir eru tæplega 10 þúsund fleiri eða 188.790, meðan konurnar eru 179.200. Íbúðar höfuðborgarsvæðisins eru 235.870 meðan 132.140 bjuggu utan þess.

Alls fæddust 1.280 börn á þriðja ársfjórðungi 2020, en 520 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 550 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 150 umfram brottflutta og aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 410 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Íslendingar farnir að snúa aftur heim

Ef skoðaðar eru tölur fyrir annan ársfjórðung sést að þá fluttu 260 fleiri erlendir ríkisborgarar frá landinu en fluttu til þess, en á fyrsta ársfjórðungi fluttu 1.450 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því.

Fyrir það voru töluvert fleiri erlendir ríkisborgarar sem fluttu til landsins en frá því á hverjum ársfjórðungi að jafnaði, en á þessu ári, eða á bilinu frá 840 á fjórða ársfjórðungi síðasta árs upp í 2.170 á þriðja ársfjórðungi 2018.

Á öðrum ársfjórðungi, líkt og á þessum þriðja, fluttu fleiri íslenskir ríkisborgar til landsins, eða 280, en þeir sem fluttu frá því, en á fyrsta ársfjórðungi ársins hefðu 40 fleiri þeirra flutt frá landinu en til þess.

Fyrir það voru alla jafna fleiri íslenskir ríkisborgarar sem fluttu til landsins en frá því, þó það sé mismunandi eftir ársfjórðungum hvers árs voru alla til að mynda 50 fleiri sem fluttu til landsins en frá því á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, og 90 á öðrum ársfjórðungi en 210 fleiri sem fluttu frá því en til á þriðja ársfjórðungi og 130 fleiri á fysta ársfjórðungi.

Enn flytja flestir til gömlu herraþjóðarinnar

Danmörk, sem Ísland var áður hluti af, var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 420 manns á þriðja ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 730 íslenskir ríkisborgarar af 960 alls. Af þeim 2.040 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands eða 650 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, eða 270, næst flestir eða 190, frá Svíþjóð og 140 frá Noregi, samtals 610 manns af 1.110.

Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 630 til landsins af alls 2.440 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 190 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 51.120 erlendir ríkisborgarar á Íslandi eða 13,9% af heildarmannfjölda.