Yfirdeild (e. Grand Chamber) Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) mun taka Landsréttarmálið fyrir. Þetta kemur fram á vef RÚV. Ákvörðunin sjálf hefur ekki verið birt, það verður gert á morgun, en málsaðilum hefur verið tilkynnt niðurstaða MDE.

Dómur MDE í máli Guðmunds Andra Ástráðssonar gegn ríkinu var kveðinn upp í mars. Þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Landsréttur hefði ekki verið skipaður lögum samkvæmt og því hefði verið brotið gegn rétti Guðmundar við meðferð máls hans. Krafa Guðmundar var studd þeim rökum að einn dómari í málinu, sem var játningarmál, hefði ekki verið réttilega skipaður vegna þeirrar ákvörðunar þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, að færa hann framar á lista hæfnisnefndar við mat á dómaraefnum.

Þrír dómarar til viðbótar voru í sömu stöðu og téður dómari og hafa þau fjögur ekki sinnt dómarastörfum við Landsrétt frá því að dómur MDE var kveðinn upp. Hluti þeirra hefur óskað eftir launuðu leyfi frá störfum svo unnt sé að setja dómara í þeirra stað. Einhverjir dómaranna höfðu í hyggju að snúa aftur til starfa kæmist yfirdeildin að þeirri niðurstöðu að taka málið fyrir.