Landsvirkjun lauk á þriðjudag, 13. janúar 2015, útboði á skuldabréfi til 10 ára að fjárhæð 30 milljóna Bandaríkjadala, andvirði um 3,9 milljarða króna, en tilboð bárust fyrir alls 54 milljónir Bandaríkjadala.

Samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar ber skuldabréfið 4,3% fasta vexti sem greiðast tvisvar á ári en höfuðstóll greiðist í einu lagi á lokagjalddaga. Skuldabréfið er selt til íslenskra lífeyrissjóða með heimild frá Seðlabanka Íslands.

Skuldabréfaútgáfan er gerð undir EMTN (e. Euro Medium Term Note) ramma félagsins án ríkisábyrgðar og verður skráð í kauphöllinni í Lúxemborg. Umsjónaraðili útgáfunnar er Íslandsbanki.