Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að verjendur Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi yfirmanna hjá Glitni, eigi ekki rétt að fá afhenta geisladiska með upptökum af yfirheyrslum skjólstæðinga sinna.

Verjendurnir kröfðust þess að fá upptökurnar, ekki síst til að sannreyna að rétt væri farið með í endurritum af yfirheyrslunum sem eru meðal gagna málsins og eiga að vera orðrétt. Segir í dómi Hæstaréttar að verjendurnir sé heimill aðgangur að slíkum upptökum auk þess sem þeir megi fá afhent endurrit af þeim.

Saksóknari sagði að ef fallist yrði á kröfu verjendanna væri hætta á að upptökurnar kæmust í hendur einhverra sem þær ættu ekkert erindi við og að það gæti leitt til þess að þær birtust á veraldarvefnum.