Laun forstjóra stærstu skráðra fyrirtækjanna í Bandaríkjunum lækkuðu um 15% á milli ára í fyrra og námu að meðaltali um rúmum 9,5 milljónum Bandaríkjadala.

Frá þessu er greint í helgarútgáfu New York Times (NYT) en helsta ástæðan fyrir minnkandi launum forstjóra er lækkandi gengi skráðra fyrirtækja auk þess sem margir aðrir þættir, s.s. kaupréttasamningar, virðast leysa beinar launagreiðslur af hólmi. Blaðið byggir tölur sínar á nýrri skýrslu Equilar sem tók saman tekjur 200 forstjóra í 199 fyrirtækjum (Motorola er eina fyrirtækið sem er með tvo forstjóra).

Miðgildi launa forstjóranna er um 7,7 milljónir dala og lækka um 13% á milli ára. Þá hafa laun forstjóra ekki verið lægri frá árinu 2004 að sögn NYT.

Launhæsti forstjórinn á síðasta ári var Lawrence Ellison, stjórnarformaður tæknirisans Oracle Group, en hann fékk greiddar um 84,5 milljónir dala, sem er meira en þeir tveir forstjórar sem koma þar á etir fengu til samans. Til gamans má geta þess að Ellison er nú sjötti ríkasti maður heims að mati Forbes tímaritsins.

Laun Ray Elliot, forstjóra Boston Scientific (sem framleiðir ýmsan búnað fyrir sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir) námu á síðasta ári 33,4 milljónum dala á meðan laun Ray Irani, forstjóra Occidental Petroleum námu um 31,4 milljón dala. Mark Hurd, forstjóri Hewlett-Packard var með um 24,2 milljónir dala í laun á síðasta ári á meðan James Hackett, forstjóri Anadarko Petroleum var með um 23,5 milljónir dala í árslaun.

Athygli vekur að lægst launaðasti forstjórinn er Steve Jobs, forstjóri Apple en árslaun hans námu 1 heilum Bandaríkjadal á síðasta ári. Það má þó geta þess að Jobs á rúmlega 1 milljarða hluta í Apple þannig að hann er ekki beint á flæðiskeri staddur þrátt fyrir lágar tekjur.

Hæst launaðasti forstjóri í fjármálageiranum var John Stumpf, forstjóri Wells Fargo sem fékk um 18,8 milljónir dala í laun á síðasta ári.

Segja má að hann hafi verið langlaunahæsti forstjóri fjármálageirans því laun kollega hans hjá stærstu bankasamstæðunum voru í raun „fáránlega“ lág miðað við það sem þekkst hefur hingað til. Þannig þénaði Vikram Pandit, forstjóri Citigroup, aðeins tæpa 129 þúsund dali í fyrra sem gerir hann að þriðja launalægsta forstjóranum í úrtakinu. Næst launalægsti var Kenneth Lewis, fyrrv. forstjóri Bank of America. Laun Lloyd Blankfein, forstjóra Goldman Sachs Group, námu tæpum 863 þúsund dölum sem gerir hann að sjöunda lægst launaðasta forstjóra síðasta árs.

Sem kunnugt er hafa laun stjórnarformanna og forstjóra stórra fyrirtækja, sérstaklega fjármálafyrirtækja, verið nokkuð gagnrýnd undanfarin misseri, þá sérstaklega þeirra fyrirtækja sem þegið hafa neyðarlán eða aðra fyrirgreiðslu frá stjórnvöldum og þannig komist hjá gjaldþroti. Þannig hafa bandarískir þingmenn, fjölmiðlar, álitsgjafar, leiðtogar verkalýðshreyfinga, hugveitur auk fulltrúa Hvíta hússins gagnrýnt hin svokölluðu ofurlaun stjórnenda fyrirtækja.

Í upphafi árs 2009 tók gagnrýnin á sig nýja mynd þegar Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skipaði Kenneth Feinberg sem svokallaðan launakeisara en honum er ætlað að fylgjast með launum, og grípa inn í eftir þörfum, hjá stjórnendum þeirra fyrirtækja sem enn skulda ríkinu fjármagn vegna neyðarlána. Það hefur meðal annars orðið til þess að bankar sem fengu neyðarlán hafa borgað þau upp hraðar en upphaflega var gert ráð fyrir til að losna við „kvaðir“ launakeisarans.