Ríkisstjórnin hefur unnið með helstu hagsmunasamtökum fyrirtækja að lausn skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Helstu atriði liggja fyrir og eru til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Vonast er til að þau gefi grænt ljós á aðgerðirnar fljótlega en stefnt er að því að 5-7000 lítil og meðalstór fyrirtæki fái lausn sinna mála fyrir næsta sumar.

Þetta kom fram í máli Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag. Þar fer fram 1. umræða um gengislánafrumvarpið..

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að fyrir liggur samkomulag um hvernig leysa eigi skuldavanda minni fyrirtækja. Samkomulagið hefur verið unnið á vettvangi fjármálafyrirtækjanna með aðkomu Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar.