*

laugardagur, 16. október 2021
Fólk 23. september 2021 08:35

Leiða stafræna vegferð Kynnisferða

Axel Gunnlaugsson verður yfirmaður upplýsingatækni og Atli Björgvinsson stafrænn markaðsstjóri hjá Kynnisferðum og Eldey.

Ritstjórn
Axel Gunnlaugsson og Atli Björgvinsson
Aðsend mynd

Í byrjun sumars sameinaðist rekstur ferðaþjónustufyrirtækjanna Kynnisferða og Eldeyjar. Hið sameinaða félag hefur nú ráðið til sín tvö starfsmenn til að leiða stafræna vegferð og aukið markaðsstarf á netinu til að auka áhuga ferðamanna á komu til Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Axel Gunnlaugsson hefur verið ráðinn yfirmaður upplýsingatækni. Hann er með gráðu í tölvu- og upplýsingafræði frá University of Oregon og hefur sérhæft sig í þróun hugbúnaðar og högun tæknilegs umhverfis fyrirtækja bæði hérlendis og erlendis. Frá árinu 2012 hefur Axel starfað við eigin rekstur hjá félaginu Codilac við ýmis konar ráðgjöf og þjónustu í upplýsingatækni.  Áður starfaði Axel sem yfirmaður upplýsingatækni hjá 365 og Sýn.

Atli Björgvinsson hefur verið ráðinn stafrænn markaðsstjóri. Hann nam viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst.  Atli hefur starfað sem markaðsstjóri Icelandic Startups, verkefnastjóri hjá Vodafone og unnið við kennslu í samfélagsmiðlum hjá Háskólanum á Bifröst svo eitthvað sé nefnt.

„Miðað við þann fjölda ferðamanna sem heimsóttu Ísland í sumar er ljóst að fjöldi ferðamanna mun heimsækja okkur á næstu misserum enda landið verið mikið í fjölmiðlum erlendis sérstaklega vegna eldgossins á Reykjanesi.“  Við ætlum að gera allt sem við getum til þess að taka vel á móti þeim sem ætla að heimsækja landið okkar og gera upplifun þeirra sem allra besta, hvort sem er við undirbúning ferðar eða við komuna til landsins.  Ég er því afar ánægður með að fá Atla og Axel til okkar með sýna miklu reynslu til að byggja upp öfluga stafræna vegferð sem skilar sér í bættri þjónustu við okkar viðskiptavini,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri sameinaðs félags Kynnisferða og Eldeyjar.