*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 26. október 2021 11:41

Leika eftir líkani Icelandair

Nýtt flugfélag í Alaska vill tengja farþega á milli Bandaríkjanna og Asíu líkt og Icelandair hefur tengt Norður-Ameríku og Evrópu.

Sigurður Gunnarsson
Mynd tekin af heimasíðu Northerns Pacific Airways.
Aðsend mynd

Nýtt flugfélag er í startholunum í Alaska sem hyggst bjóða ferðamönnum sem vilja ferðast frá Norður-Ameríku til Asíu valkost á viðdvöl í nyrsta fylki Bandaríkjanna. Félagið, sem ber heitið Northern Pacific Airways (NPA), vill byggja viðskiptamódel sitt á Icelandair, að því er kemur fram í grein Flight Global.

„Við viljum búa til tengistöð (e. hub) hér í Anchorage [stærstu borg Alaska], til að gera það sama og Icelandair hefur gert með góðum árangri í Keflavík,“ er haft eftir Rob McKinney, forstjóra flugfélagsins.

Líkt og Icelandair, vill Northern Pacific selja ódýrara flug heldur en í beinum flugum. McKinney bætir við að flestar flugleiðir á milli Norður-Ameríku og Asíu liggi nálægt Anchorage. „Við teljum okkur hafa einstakt tækifæri fyrir slíka tengistöð á hinni hlið hnattarins. Anchorage er landfræðilegur miðpunktur á stórbaugsleiðinni á milli Asíu og Norður-Ameríku.“

Fyrr í mánuðinum keypti félagið sína fyrstu flugvél, sem er 27 ára gömul og var áður í flota American Airlines. NPA stefnir á að starfrækja sex Boeing 757-200 vélar í fyrstu og stækka flotann svo upp í tólf vélar.

„Við getum boðið upp á sanngjörn verð með því að notast við „narrow-body“ vélar og þurfum því ekki að greiða fyrir eldsneyti alla leiðina yfir Kyrrahafið. Jafnvel með eldri tækni, þá teljum við okkur hafa betri verðgrunn,“ er haft eftir McKinney. „Stoppið í Anchorage er ekki út úr leiðinni og lengir heildarflugtímann í rauninni ekki.“

Northern Pacific Airport er í eigu Float Alaska, sem keypti rekstur Ravn Alaska flugfélagið, sem sinnir flugum á milli 11 áfangastaða í Alaska, úr þrotabúi á síðasta ári. McKinney, sem er einnig forstjóri Ravn Alaska, segir að undirbúningur fyrir NPA hófst að alvöru í ár og að félagið sé í viðbragðsstöðu nú þegar byrjað er að aflétta reglum á landamærum.

McKinney áætlar að NPA þurfi um 100 milljónir dala til að hefja starfsemi og horft er til að reksturinn hefjist á þriðja fjórðungi næsta árs. Fram kemur að félagið sé búið að afla um þriðjung af fjármögnunarmarkmiði sínu.

Meðal áfangastaða sem NPA horfir til er Incheon í Suður Kóreu ásamt Tókýó, Nagoya og Osaka í Japan. Í Bandaríkjunum er horft til Las Vegas, Orlando og New York.  

Icelandair náð að laða túrista að á veturna

McKinney vonar að NPA verkefnið laði að ferðamenn til Alaska sem geti þá dvalið nokkra daga og flogið með Ravn á milli borga í fylkinu. Hann bendir á að viðdvölin (e. stopover) sé lykilmarkmið í viðskiptamódelinu. En verður áhugi á að heimsækja Alaska að vetri til, þegar dagarnir eru stuttir og afar kalt er úti?

„Verður meiri aðsókn yfir sumrin? Mögulega. En ég vil þó benda á vini mína hjá Icelandair. Það hefur heppnast vel hjá þeim að laða að túrista að vetri til einnig, með tónlistarhátíðum, matarhátíðum og norðurljósunum.“