Foreldrar barna sem voru í gæslu á Leikskólanum 101 hafa ekki fengið endurgreiddan hluta leikskólagjalda eins og stefnt var að þegar leikskólanum var lokað í ágúst í fyrra. „Nokkrir foreldrar gerðu kröfu um það að fá endurgreitt og við skoðuðum það. En á endanum var það ekki hægt enda ekki til neinn peningur til þess og því fór reksturinn í þrot,“ segir Þyrí Steingrímsdóttir, skiptastjóri þrotabús leikskólans.

Skólanum, sem var við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, var lokað eftir að greint var frá því að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði til rannsóknar að starfsmenn leikskólans hafi beitt börn margvíslegu harðræði. Lögregla rannsakaði málið. Hún sendi foreldrum bréf í lok mars þar sem fram kom að ekkert saknæmt hafi komið fram í þeim myndböndum sem lögreglan hafði til rannsóknar, henni hafi því verið hætt og málið fellt niður.

Þyrí segir í samtali við Viðskiptablaðið að þegar greint hafi verið frá rannsókn barnaverndaryfirvalda á meintu harðræði starfsmanna gegn börnum þar hafi rekstrargrundvellinum verið kippt undan skólanum. Aðeins hafi tekist að greiða starfsmönnum síðustu mánaðarlaun þeirra, en ekki á uppsagnarfresti eða tengd gjöld. Þar með hafi sjóður leikskólans tæmst og fór reksturinn í þrot.

Skiptafundur Leikskólans 101 hefur verið boðaður 25. apríl næstkomandi. Þyrí telur ekki miklar kröfur á búinu aðrar en forgangskröfur á borð við laun, staðgreiðslu og kröfur lífeyrissjóða.