„Í þessum viðskiptum á milli IBM og Lenovo felast mikil tækifæri fyrir viðskiptavini Nýherja. Við vitum að þar verður hvergi slakað á hjá nýjum aðilum,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja, í tilkynningu. Í gær var greint frá því að kínverska tæknifyrirtækið Lenovo ætli að taka yfir framleiðslu á x86-netþjónum IBM. Nýherji er umboðsaðili IBM og Lenovo hér á landi.

Samningurinn nær til System x, BladeCenter og x86 Flex System netþjóna, NeXtScale og iDataPlex-netþjóna og tengds hugbúnaðar, nettenginga- og viðhaldsrekstrar. Áætlað verðmæti samningsins nemur 2,3 milljörðum dala, jafnvirði um 265 milljörðum íslenskra króna.

Um níu ár eru liðin síðan Lenovo tók yfir framleiðslu á einmenningstölvum IBM. Upp frá því hafa fyrirtækin unnið saman á mörgum sviðum.

Fram kemur í tilkynningu Nýherja að IBM heldur eftir System z stórtölvudeildinni, Power-netþjónadeildinni, IBM System Storage geymslulausnum, Flex-netþjónum á Power-grunni og PureApplication og PureData. IBM mun jafnframt halda áfram að þróa Windows- og Linux-hugbúnaðarsafn sitt fyrir x86-kerfi.