Kristján Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri og eigandi Stafrænu prentsmiðjunnar Leturprents ehf. hefur gert samkomulega um sölu á fyrirtækinu til tveggja starfsmanna félagsins. Fyrirtækið er búið að vera í eigu Kristjáns og fjölskyldu hans í áratugi, eða allt frá því faðir hans stofnaði það fyrir 52 árum.

Kaupendur Leturprents eru Burkni Aðalsteinsson tæknistjóri fyrirtækisins og Hálfdán Gunnarsson prentsmiður.

Burkni staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að búið væri að ná samkomulagi um kaupin og að kaupendur hafi þegar tekið við stjórn félagsins. Sagði hann kaupverðið vera trúnaðarmál.

?Það er gert ráð fyrir að formlega verði gengið frá málinu 20. september, eða að lokinni áreiðanleikakönnun."

Hann segir að með í kaupunum fylgi fasteignin að Síðumúla 22 í Reykjavík. Þá hafi þeir félagar einnig fest kaup á Offsetfjölritun Mjölnisholti 14 í Reykjavík.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru þeir félagar ekki einir um hituna því prentsmiðjan Oddi hefur þreifað fyrir sér um kaup á Leturprenti í sumar en án árangurs. Þá mun Prentmet hafa sýnt áhuga á að kaupa Offsetfjölritun, en nú hafa bæði þessi fyrirtæki gengið þessum stóru prentsmiðjum úr greipum.