Vextir á millibankamörkuðum lækkuðu í dag og heldur áfram sama þróun og í síðustu viku.

Þetta kemur fram í Hálffim fréttum Kaupþings.

Þar kemur fram að ástæðan er m.a. björgunarpakkar ríkisstjórna til að komast hjá falli bankageirans ásamt innspýtingu fjármagns af hálfu seðlabanka.

Millibankavextir í London, svokallaðir Libor vextir, sem er mælikvarði á lánskjör á milli bankastofnanna til þriggja mánaða í dollurum, lækkuðu um 36 punkta í dag og standa í 4,06%.

Sömuleiðis lækkuðu daglánavextir í dollurum um 16 punkta eða niður í 1,51% sem er lægsta vaxtaprósenta í yfir fjögur ár.

Einnig lækkuðu þriggja mánaða vextir á evrur á mörkuðum.

Söfnun lokið?

Greiningardeild Kaupþings segir millibankamarkaði hafa hækkað gríðarlega það sem af er ári eftir að bankar hófu að sanka að sér öllu lausu fé sem þeir mögulega gátu eftir að undirmálslánakrísan skall á í Bandaríkjunum.

Afskriftir og tap vegna undirmálslána nema nú í það minnsta 660 milljörðum dollara.

Þá kemur fram í Hálffimm fréttum að þrátt fyrir að álagið á millibankamörkuðum sé að lagast er enn langt í land með að bankar treysti hvor öðrum og kjósa þeir heldur að leggja innlán inn í seðlabanka.

Þetta sjáist best á því að þriggja mánaða Libor vextir eru enn 256 punktum hærri en stýrivextir bandaríska seðlabankans sem eru nú 1,5% og eru enn 120 punktum hærri en fyrir mánuði síðan.