Miðstjórn ASÍ birti fyrir helgi ályktun þar sem flugfélagið Play er sakað um að fljúga á undirboðum launa og landsmenn eru hvattir til að sniðganga félagið. Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur jafnframt farið hörðum orðum um kjaramál hins nýja flugfélags í fjölmiðlum.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir helgi, byggir samanburður ASÍ og Drífu á strípuðum grunnlaunum flugliða Play en föstum launum flugliða Icelandair, eins og Flugfreyjufélag Íslands skilgreinir þau; það er grunnlaun, vaktaálag og handbókunargjald. Samkvæmt kjarasamningum flugfélaganna tveggja eru strípuð grunnlaun Play tugum þúsunda hærri en hjá Icelandair.

Ekki tekið tillit til séreignarframlags

Drífa sagði í viðtali við RÚV í síðustu viku að lífeyrisgreiðslur Play væru ekki tryggðar samkvæmt þeim kjarasamningum sem eru á almennum vinnumarkaði, þ.e. 15,5%. Rétt er að geta þess að þar af er framlag atvinnurekanda 11,5% og að samtryggingariðgjöld flugliða Play eru 12% en þar af er framlag Play 8%.

Í samanburði Drífu er ekki tekið tillit til framlags atvinnurekanda í séreignarsjóð, en samkvæmt lögum er lágmarksframlag vinnuveitanda 8% í samtryggingarsjóð og 2% í séreignarsjóð.

Samkvæmt lífskjarasamningunum sem gilda á almennum vinnumarkaði er miðað við að framlag atvinnurekenda sé 11,5% lágmarksiðgjald og 2% í séreignarsjóð, eða samtals 13,5%. Af þessum 11,5% er launþegum heimilt að ráðstafa 3,5% í séreignarsjóð.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins óskaði Íslenska flugstéttarfélagið (ÍFF) eftir því að skylduframlag Play yrði 8% en framlag í séreignarsjóð yrði hærra sem lækkun nemur, eða samtals 5,5%. Heildarframlag Play er því hið sama og tíðkast á almennum vinnumarkaði, 13,5%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .