Kröfu fimm lífeyrissjóða um að fjárfestingafélagið Brú II Ísland hf. verði tekið til gjaldþrotaskipta var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember. Lífeyrissjóðirnir fimm – LSR, LIVE, Gildi, Stapi og Birta – hafa áfrýjað málinu til Landsréttar en sjóðirnir áttu stóran hlut í Brú II í árslok 2020 og þá átti ríkissjóður 22,2% hlut.

Brú II er fjárfestingafélag sem stofnað var í Lúxemborg árið 2006. Áralangar deilur hafa verið meðal hluthafa og stjórnenda Brúar II en Gísli Hjálmtýsson er framkvæmdastjóri Brúar II og eigandi umsýsluaðila félagsins Thule Investments. Félagið Brú II var skipulagt með þeim hætti að fjárfestar í félaginu eignuðust svokölluð B-bréf sem fylgdi forgangur á arð en voru án atkvæðisréttar. Einungis A-hlutum fylgir atkvæðisréttur sem öll voru á hendi félags í eigu Gísla.

Í nóvember 2008 var systurfélagið Brú II Ísland hf. stofnað til að uppfylla kröfur Seðlabankans vegna gjaldeyrishaftanna. Árið 2016 keypti Brú II Ísland eignir af Brú II SICAR í Lúxemborg og félagið í Lúxemborg sett í slitaferli. Í skýrslu stjórnar Brúar II á Íslandi kemur fram að félagið í Lúxemborg hafi verið lýst gjaldþrota í fyrra vegna reikninga frá Deloitte sem fer með slitastjórn félagsins sem séu orðnir tuttugufalt hærri en slitastjóri hafi áætlað frá upphafi.

Lífeyrissjóðirnir kröfðust upphaflega þess að íslenska félaginu yrði slitið í desember árið 2020. Lífeyrissjóðirnir byggja málatilbúnað sinn á ákvæði í samþykktum félagsins um að slíta bæri því tíu árum eftir stofnun þess. Stjórnendur Brúar II Íslandi benda á móti á að heimilt hafi verið í upphaflegum samþykktum Brúar frá 2006 að framlengja líftíma félagsins tvívegis um tvö ár í senn. Ágreiningur er um hvort það eigi við um íslenska félagið sem stofnað var árið 2008.

Hlutafjáraukning og breyting á samþykktum verði ógild

Lífeyrissjóðir reka annað dómsmál gegn Brú II Íslandi þar sem þeir krefjast þess að ógild verði ákvörðun um hlutafjáraukningu og breytingar á samþykktum félagsins frá því í mars og apríl á síðasta ári. Á hluthafafundinum í mars var tillögu lífeyrissjóðanna um að slíta félaginu frestað en á sama tíma samþykkt af Thule Investments, eina hluthafanum með atkvæðisrétt, að fella brott ákvæðið um að slíta ætti félaginu tíu árum eftir stofnun þess. Þá fór hlutafjáraukningin í sér að Thule Investments eignaðist 67,5% hlut í félaginu.

Aðrir hluthafar Brúar II hafa ekki vilja leggja félaginu til frekara fé. 800 milljóna innköllun var gerð í félaginu í nóvember árið 2020 sem ekki hefur verið greidd og hluthafarnir hafa andmælt því að heimild til innköllunar hafi verið til staðar. Óverulegar eigur eru eftir í Brú II Íslandi en þær voru metnar á 62 milljónir króna í árslok 2020. Áralöng málaferli voru á milli félaga tengdum Brú og Mogul Holding um yfirráð og eignarhluti í félaginu sem Brú tapaði að lokum í Hæstarétti árið 2018.

Þar af var hlutur í leiksýningafélaginu Mogul Holding ehf. metinn á 37 milljónir króna. Í skýrslu stjórnar í ársreikningi ársins segir að skuldauppgjör hafi verið gert við Brú II SICAR í Lúxemborg á árinu 2021 og eina krafan sem eftir standi á íslenska félagið sé umsýsluþóknunin sem deilt hefur verið um réttmæti á. Umsýsluaðilinn sé tilbúinn að lækka umsýsluþóknun niður í 84 milljónir króna sem felur í sér að eigið fé félagsins verði jákvætt og muni ekki grípa til aðgerða sem knýi félagið í þrot.

Mótmæla umsýsluþóknun

Fleiri ágreiningsefni snúa að því hvort skuldbindingar félagsins í Lúxemborg haf fylgt með þegar starfsemin var færð til Íslands árið 2016. Þar á meðal er deilt um réttmæti umsýsluþókunar Brúar II Íslans til Thule Investments. Í skýringum við ársreikning Brúar II Íslands segir að umsýslukostnaðurinn byggi á upprunalegum skilmálum sjóðsins frá 2006 og skuli ekki vera lægri en 1,5% af kostnaðarverði allra fjárfestinga félagsins frá upphafi, sem numið hafi tæpum 4,6 milljörðum króna. Þessu hafa hluthafar Brúar II Íslandi andmælt. Skuld vegna ógreiddrar umsýsluþóknunar var bókfærð á 222 milljónir króna í árslok 2020 samkvæmt ársreikningi Brúar II Íslandi.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .