Íslenskir lífeyrissjóðir eiga að minnsta kosti 40% af heildarhlutafé á íslenskum hlutabréfamarkaði og nemur bein eign þeirra í skráðum félögum yfir 365 miljörðum króna. Þetta er niðurstaða greiningar Viðskiptablaðsins á 20 stærstu hluthöfum hvers félags sem skráð er á aðalmarkað Kauphallarinnar.

Í sambærilegri úttekt greiningardeildar Arion banka í maí 2013 áttu lífeyrissjóðirnir um 31% af markaðnum og hefur hlutdeild þeirra því hækkað um níu pró­sentustig á þremur árum. Markaðsvirði þeirra 16 félaga sem skráð eru í Kauphöllinni er alls tæpir 920 milljarðar króna, eða 41,6% af vergri landsframleiðslu ársins 2015. Þó ber að athuga að 66,3% af hlutabréfum Össurar eru skráð í Danmörku og því má segja að íslenski markaðurinn sé strangt til tekið 132 milljörðum minni en áðurnefnd fjárhæð.

Ef tekinn er saman heildareignarhlutur 20 stærstu hluthafanna í hverju félagi kemur í ljós að þeir eiga samtals 79% af hlutafé íslenskra félaga og nemur það 728 milljörðum króna.

Þrír lífeyrissjóðir eiga meira en fjórðung

Stærsti hluthafinn á íslenskum markaði er Lífeyrissjóður verzlunarmanna og á hann alls um 11,6% af hlutafé á markaði. Sjóð­ urinn er jafnframt eini fjárfestirinn sem er á meðal 20 stærstu hluthafa í öllum skráðum félögum á markaði. Þar af er hann stærsti hluthafinn í átta félögum, þar á meðal Icelandair, tryggingafélögunum TM og VÍS og fasteignafélögunum Reginn og Eik. Markaðsvirði eigna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á markaði er rúmir 100 milljarðar króna. Til viðbótar er rúm 7 milljarða króna eign sjóðsins í Marel í gegnum hlut sinn í fjárfestingarfélaginu Eyri Invest. Eyrir er einn stærsti hluthafinn á íslenskum markaði í gegnum 29,3% hlut sinn í Marel og er hlutur félagsins metinn á tæpa 53 milljarða króna, sem gera 5,7% af heildarvirði markaðarins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .