Íbúðalánasjóður hóf í gær útboð á íbúðabréfum að virði þrír milljarðar króna. Greiningardeild Íslandsbanka segir að miðað við óbreytta ávöxtunarkröfum íbúðabréfa í gærmorgun og óbreytt 0,6% vaxtaálag sjóðsins geti farið svo að útlánavextir hækki úr 4,15% í 4,7-5,1%.

?Undanfarið hefur heimild Íbúðalánasjóðs til að afnema uppgreiðsluheimild íbúðalána verið í umræðunni en sjóðurinn metur vaxtaálag vegna hennar 0,25%. Ef uppgreiðsluheimildin yrði afnumin eða lántakendum boðið að velja á milli lægri vaxta og uppgreiðsluheimildar gæti Íbúðalánasjóður miðað við aðrar forsendur óbreyttar boðið útlánavexti á bilinu 4,45%-4,85%," segir greiningardeildin.

Útboð Íbúðalánasjóðs er í takt við endurskoðaða áætlun sjóðsins, sem birt var fyrr í nóvember. Þar koma fram að útgáfa ársins verður lækkuð um 7,2 milljarða og í endurskoðaðri útgáfuáætlun er reiknað með að heildarútgáfan verði 50,8 milljarðar á árinu. Þegar hafa verið boðnir út 40,3 milljarðar króna.

Landsbankinn hækkaði nýverið húsnæðislánavexti sína úr 4,15% í 4,45% og að sögn bankans er markmið hækkunarinnar að hjálpa til við að kæla húsnæðismarkaðinn og draga úr verðbólgu, en húsnæðisliður verðbólgumælinga er helsta orsök þess að verðbólga er yfir efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlsabankans.

Greiningardeild Íslandsbanka telur líkur á því að sjóðurinn muni hækka útlánavexti sína á næstunni. ?Sigli hinir bankarnir í kjölfarið má búast við að húsnæðismarkaður kólni umtalsvert og þrýstingur á verðbólgu af hans völdum hverfi að meira eða minna leyti," segir greiningardeildin.

?Einnig mun slík hækkun vaxta draga úr eftirspurn, þar sem hagstæð lánskjör og mikil verðhækkun á húsnæðismarkaði hefur hvatt ýmsa til þess að nýta hluta eignamyndunar sinnar til neyslu."