Líklegt er talið að Mario Draghi, sem nýverið tók við stóli bankastjóra evrópska seðlabankans af Jean-Claude Trichet, feti í fótspor kollega síns Ben Bernanke og lækki stýrivexti niður í 0,5% áður en sumarið gengur í garð. Allt fer þetta þó eftir því hvernig skuldakreppunni á evrusvæðinu vindur fram.

Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um evrópska seðlabankann og skuldakreppuna. Þar er vitnað til Jurgen Michels, gjaldeyrissérfræðings hjá Citigroup í London. Bloomberg segir hann meðal þeirra svartsýnni á efnahagshorfur, hann spái því að hagkerfi evrusvæðisins dragist saman um 1,2% á árinu og 0,2% á næsta ári samhliða aukinni verðbólgu. Þetta muni valda því að evrópski seðlabankinn lækki stýrivexti. Þá er bent á að bakgrunnur þeirra Bernankes og Draghis er svipaður, þeir hafi báðir verið við hagfræðinám í MIT-háskólanum í Bandaríkjunum.

Þar segir á meðal annars að evrusvæðið sé á barmi annars samdráttarskeiðs, atvinnuleysi ekki hærra í 13 ár - það er nú 10,3% - hætta á verðhjöðnun og verði seðlabankinn að grípa í taumana.

Á meðal þess nýr seðlabankastjóri er sagður skoða eru fleiri möguleika en lækkun stýrivaxta, svo sem aukin kaup á eignum banka og fjármálastofnana líkt og bandaríski seðlabankinn hefur gripið til vestanhafs í því augnamiði að auka lausafjárstöðu evrópska banka.

Stýrivextir á evrusvæðinu standa nú í 1% og hafa aldrei verið lægri. Stýrivextir eru hins vegar nálægt núlli í Bandaríkjunum.