Þann 1. janúar sl. sameinuðu Límtré hf. og Vírnet Garðastál hf. innlendan rekstur sinn og heitir hið nýja sameinaða fyrirtæki Límtré Vírnet ehf. Framkvæmdastjóri Límtrés Vírnets ehf er Stefán Logi Haraldsson, sem áður var framkvæmdastjóri Vírnet Garðastál hf. Fyrirtækin hafa undanfarin ár haft með sér samstarf en stíga nú skrefið til fulls og sameinast.

Um leið var stofnað nýtt fyrirtæki LVG International ehf. sem sjá mun um erlenda starfsemi samstæðunnar Límtré Holding hf sem er eigandi beggja fyrirtækjanna. Stjórnarformaður fyritækjanna er Hörður Harðarson og framkvæmdastjóri LVG International er Guðmundur Ósvaldsson, sem áður var framkvæmdastjóri Límtrés.

Fyrirtækin Límtré hf og Vírnet Garðastál hf hafa verið rótgróin fyrirtæki á íslenska byggingamarkaðnum og þjónað honum um áratuga skeið. Límtré hf var stofnað árið 1982 að Flúðum í Hrunamannahreppi og hefur frá upphafi framleitt límtré, eins og nafnið gefur til kynna, ásamt því að annast hönnun og tæknilausnir á því efni. Árið 1991 kom Límtré hf að stofnun og byggingu einingaverksmiðjunnar Yleininga, í Reykholti, Biskupstungum, þar sem framleiddar hafa verið húseiningar með stályfirborði. Fyrirtækið yfirtók síðan þennan rekstur árið 1995. Vírnet hf. var stofnað árið 1956 í Borgarnesi, þar sem upphaflega var eingöngu um að ræða framleiðslu á nöglum og vír en síðar völsun á klæðningarefni úr stáli og fleiri málmum, ásamt ýmiskonar þjónustustarfsemi. Bæði þessi fyrirtæki hafa verið kjölfesta í atvinnulífi sinna sveitarfélaga allt frá sofnun þeirra.

Það er síðan á miðju árinu 2000 að Límtré keypti Vírnet og í framhaldinu Garðastál, í Garðabænum og var rekstur þeirra fyrirtækja síðan sameinaður í byrjun árs 2001, undir nafni Vírnets Garðastáls og framleiðslunni allri komið fyrir í Borgarnesi. Í lok ársins 2002 var síðan fyrirtækið Lindax keypt og sameinað rekstri Vírnets Garðastáls.

Vírnet Garðastál hf hefur verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Límtrés hf en samstarfið á milli fyrirtækjanna hefur verið töluvert mikið.

"Það lá því beinast við að þessi tvö öflugu fyrirtæki á landsbyggðinni sameinuðust og sú varð raunin 1. janúar sl. Samhliða sameiningunni átti sér stað mikil endurskipulagning á öllum rekstri fyrirtækjanna og liður í því er aðgreining á milli innlendrar og erlendrar starfsemi. Stofnað hefur verið eignarhaldsfélag um reksturinn, Límtré Holding hf., en eigendur þess eru hluthafar Límtrés hf.. LVG International ehf. mun alfarið sjá um rekstur verksmiðja í Portúgal og Rúmeníu, auk þess að vinna að frekari útrás og fjárfestingartækifærum á erlendri grundu. Límtré Vírnet ehf. einbeitir sér að innlendum markaði hvað varðar framleiðslu, sölu og þjónustu við byggingariðnaðinn," segir í frétt frá fyrirtækinu.