Linda B. Bentsdóttir framkvæmdastjóri er formaður nýrrar stjórnar FLE sem kjörin var á aðalfundi félagsins í gær. Fráfarandi formaður, Gísli Guðmundsson sem og Haraldur Johannessen stjórnarmaður gáfu ekki kost á sér til endurkjörs eftir að hafa setið í stjórn félagsins frá upphafi.

Linda hefur ekki setið áður í stjórn FLE. Magnea Guðmundsdóttir var áður í varastjórn en tekur nú sæti í aðalstjórn. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir: Ellert Eiríksson, varaformaður, Jakob Hrafnsson og Eysteinn Jónsson. Nýir varastjórnarmenn eru Björk Guðjónsdóttir og Petrína Baldursdóttir.

Nýi stjórnarformaðurinn, Linda B. Bentsdóttir, lauk kandídatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1992. Hún er framkvæmdastjóri hjá Inn Fjárfestingu ehf. og situr í stjórn Askar Capital hf. Þar áður starfaði hún sem forstöðumaður og síðar staðgengill framkvæmdastjóra Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á árunum 2000-2006.

Farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um rúm 11% á árinu 2006 miðað við árið 2005 eða úr rétt tæpum 1.817 þúsund farþegum í rúma 2.019 þúsund farþega. Þetta er í samræmi við farþegaspá sem breska fyrirtækið BAA Plc gerði árið 2004 fyrir FLE. Spáð er 6% fjölgun árið og að árið 2015 verði farþegafjöldinn kominn vel yfir þrjár milljónir, sem jafngildir tvöföldun á einum áratug.