Nova hefur haldið sér litlu og snöru í snúningum í gegnum árin og haldið fast í hugarfar áskorandans. Þessu til vitnis starfa um 150 manns hjá félaginu í dag, sem er mun minni aukning en á umsvifum félagsins á aðra mælikvarða. Áratugur er liðinn síðan starfsmannafjöldi náði þriggja stafa tölu, en á þeim tíma var veltan um þriðjungur þess sem hún er í dag.

„Þetta er áskorun, en við erum áskorandi og við viljum hafa áskoranir. Ef þú heldur ekki dampi þá missirðu flugið. Þetta snýst um að halda stemningunni lifandi á hverjum einasta degi og vera alltaf á tánum. Við erum lítil að innan og stór að utan, eins og við segjum gjarnan, og getum því hlaupið hratt. Skipulagið er flatt og boðleiðirnar stuttar, og þannig viljum við hafa það.“

„Auðvitað gerum við mistök eins og aðrir, en það er okkar að læra af þeim og gera betur næst. Við verðum alltaf að halda í rætur okkar, vinna í að ná markmiðum og muna hvað skapaði velgengnina, og hlúa að því. Það höfum við gert á þessum fimmtán árum og ég held að það hafi sýnt sig að reksturinn hefur verið stöðugur, skynsamur og góður.“

Þegar blaðamaður reynir að kjarna ofangreinda hugmyndafræði hugsar Margrét sig örlítið um, en tekur svo undir að lýsa megi menningu fyrirtækisins þannig að þau séu fljót að þróast í nýjar áttir eftir því hvert tæknin og þarfir viðskiptavina leiða þau, en ekki síður fljót að átta sig á því þegar eitthvað gengur ekki upp og gera ráðstafanir eftir því.

Fréttin er hluti af lengra viðtali við Margréti í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.